143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

staða verndarflokks rammaáætlunar.

[14:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og hæstv. ráðherra þau svör sem hann kom með hér í upphafi þó að hann tæki fram að hann ætti eftir að svara umtalsvert mörgum spurningum og það er vissulega rétt.

Mig langar þó að segja það hér, út frá því sem hann nefndi um mörk friðlandsins og vitnaði þar til vinnu starfshópa sem störfuðu fyrir sjö til átta árum, að síðan þá hefur sitthvað gerst og síðan þá hefur tillögu verið skilað til Alþingis í rammaáætlun um mörk friðlandsins samkvæmt þeim sérfræðingum sem þá störfuðu í faghópnum og er núna bitist um hvort séu hreinlega að viðra einhverjar skoðanir á málum þegar þeir byggja tillöguna á rannsóknargögnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að því sé haldið til haga.

Ég reikna með að hæstv. ráðherra svari síðan hér á eftir og ljúki svari sínu hvað varðar verndarflokk rammaáætlunar en ekki síður hvað varðar einmitt hlutverk fagfólks og fræðimanna í þessari umræðu.

Við vitum öll hvernig andrúmsloftið var hér í aðdraganda hruns. Við þekkjum öll þá umræðu sem fór fram eftir hrun um sjálfsritskoðun fræðimanna. Ég held að það skipti nú miklu máli að við sem störfum hér á Alþingi, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, ræðum það hver afstaða okkar á að vera þegar við köllum til sérfræðinga og hvort við ætlum virkilega ekki að hlusta á þá og bera virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem þeir setja fram byggð á gögnum og rannsóknum en ekki blanda þar inn í umræðu um að viðkomandi sérfræðingar séu bara í pólitík. Ég treysti því að við viljum ekki skapa hér aftur andrúmsloft sjálfsritskoðunar og þöggunar þar sem fólk kýs fremur að þegja en að stíga fram með sjónarmið sem byggja á rannsóknum. Þetta er mál sem við höfum ekki meðhöndlað (Forseti hringir.) hér af neinni léttúð eða sett í skotgrafir (Forseti hringir.) heldur bara rætt það opinskátt því að það skiptir mjög miklu máli fyrir það samfélag sem við ætlum að byggja hérna (Forseti hringir.) hvernig við tökum þátt í umræðunni og (Forseti hringir.) hvernig við tölum um fræðimenn og fagfólk.