143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Ég óska hæstv. ráðherra til hamingju með frumvarpið. Það er gríðarlega mikið hagsmunamál að við förum að koma á jöfnunarsjóði þegar kemur að dreifingu raforku vítt og breitt um landið. Líkt og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta stefna beggja stjórnarflokkanna, samþykkt á landsþingum flokkanna, og hluti af samþykktri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ráðast í uppbyggingu á slíkum jöfnunarsjóði.

Ég vil þó inna hæstv. ráðherra örstutt eftir því hvort það hafi komið til skoðunar við vinnslu frumvarpsins að sú upphæð sem áætlað er að innheimta með þessum jöfnunarsjóði taki sjálfkrafa breytingum líkt og gerist með flutningsjöfnunarsjóð olíuvara þannig að ef dreifikostnaður lækkar eða hækkar breytist gjaldið sjálfkrafa.