143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar tillögur um jöfnun raforkukostnaðar og ekki hvað síst það sem ætti að verða næsta skrefið sem varðar húshitun. Starfshópur sem hafði starfað á vegum fyrrverandi ríkisstjórnar skilaði tillögum nú í desember og ein af tillögum hans gekk út á að ná ætti fullum jöfnuði í raforkukostnaði í dreifbýli og þéttbýli.

En mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra um fjármögnunina. Þar var tillaga um að jöfnunargjald yrði lagt á hverja framleidda kWst, sem hefði þýtt að stóriðjan og öll orkufyrirtækin hefðu greitt til jafns við heimilin, en nú er tillagan orðin sú að einungis verði tilfærsla milli heimilanna hvað varðar þessa niðurgreiðslu.

Þetta hefði þýtt að hægt hefði verið að ná fullum jöfnuði með 10 aurum á hverja kWst á heimilin, eða raunar á öll orkufyrirtæki, en hér er tillagan um að (Forseti hringir.) það verði 30 aurar af því að orkufyrirtækin eru undanskilin. Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir því hvers vegna þessi breyting var gerð.