143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:14]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli mínu hefur frumvarpið jákvæð áhrif á þá sem eru í dreifbýli á köldum svæðum og þurfa að rafhita hús sín. Samkvæmt útreikningum Orkustofnunar hefur jöfnunargjaldið þau áhrif að kostnaður vegna rafhitunar í dreifbýli lækkar um 9–9,5%, eða um 21.000 kr. á ári eins og ég kom inn á.

Að sama skapi hefur frumvarpið ekki áhrif til hækkunar á raforkukostnaði þeirra sem notast við rafhitun og búa í þéttbýli, t.d. á Snæfellsnesinu þar sem hv. þingmaður þekkir vel til. Þeir koma út á sléttu hvað varðar húshitunina. Ástæða þess er sú að frumvarpið hefur í för með sér að þar sem raforkukostnaður í dreifbýli lækkar lækkar að sama skapi þörfin fyrir niðurgreiðslur til húshitunar. Það gefur svigrúm til að nota þá fjármuni til að vega á móti og jafna út hækkunina á raforkukostnaði í þéttbýli vegna húshitunar.

Vegna fyrri spurningarinnar ítreka ég það svar sem ég gaf áðan, að markmiðið með þessu er að jafna innan kerfisins, þess vegna var stóriðjan ekki tekin inn í þetta.