143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá skil ég þetta svona: Farið er frá þverpólitísku samráði og þverpólitískri niðurstöðu, mjög víðtæku samráði, yfir í að taka ákvörðun byggða á samráði við Orkustofnun, Samorku og Hagstofu Íslands. Það er í raun breytingin hér og það er greinilega pólitísk ákvörðun að hlífa stærstu raforkukaupendunum og láta þá sem reka heimili og meðalstór fyrirtæki bera jöfnunarbyrðina. Það er pólitísk ákvörðun, það er þá ágætt að fá það hér fram.

Ég hefði viljað að menn fylgdu frekar hinu þverpólitíska samkomulagi sem náðst hafði. Ég minni líka á að hæstv. núverandi forseti Alþingis lagði fram tillögu á síðasta og þarsíðasta þingi um þetta mál sem hann byggði á nákvæmlega þeirri sátt.

Ég hefði því frekar viljað sjá að menn færu í þá átt. En gott og vel, hæstv. ráðherra lýsir því yfir að þetta sé hennar pólitíska niðurstaða. Þá er það þannig, í anda þeirrar pólitísku niðurstöðu sem þessi ríkisstjórn kemst gjarnan að, þ.e. breiðu bökin eru venjuleg heimili og lítil fyrirtæki hér á landi.