143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var eins og mig grunaði, ekki er betur hægt að sjá en hæstv. ráðherra sé að leggja fram frumvarp gegn því sem hún betur veit í skattamálum. Það yrði til að æra óstöðugan ef allir fagráðherrar ætluðu að koma hér inn með frumvörp og vísa til sinna eigin fagnefnda en ekki til efnahags- og viðskiptanefndar með sérstökum nýjum sköttum til þess að kosta þau verkefni sem þeir vilja gjarnan ráðast í. Þá stöndum við einfaldlega uppi með fjöldann allan af nýjum sköttum í landinu og sífellda flækingu skattkerfisins. Það er hins vegar þannig að allir borga auðlindagjald á kílóvattstund, líka stóriðjan, nú þegar. Það er til dæmis hægt að auka tekjuöflun, hefði ég haldið, af þeim skatti og verja til þessa góða verkefnis þannig að heimilin og fyrirtækin í landinu, almennu fyrirtækin, greiði mun minna en hér er gert ráð fyrir, stóriðjan taki sinn skerf og að við flækjum ekki skattkerfið. Ég hefði talið ákjósanlegt, virðulegur forseti, og rétt að (Forseti hringir.) þessu frumvarpi væri vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem á að hafa heildarsýn yfir tekjuöflun ríkisins og fjalla um öll skattamál hér í þinginu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvers vegna hún leggi það ekki til.