143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér á fyrsta degi þingsins á nýbyrjuðu ári frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum, sem hefur verið kallað jöfnunargjaldsfrumvarp.

Til að gera langa sögu stutta og fara yfir byrjunina og tilurðina var því lofað árið 2003 þegar Evróputilskipun um raforku var tekin inn í íslensk lög í tíð framsóknarmanna í iðnaðarráðuneytinu með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar, ég sat þá í hv. iðnaðarnefnd, að setja inn pening sem mundi duga til niðurgreiðslu til þess að jafna húshitunar- og raforkukostnað í dreifbýli á móti þéttbýli. Í það voru settar 240 milljónir með loforði um að það mundi aukast. Við það hefur aldrei verið staðið. Aldrei. Það var ekki gert á þeim árum sem komu þar á eftir í tíð þeirrar ríkisstjórnar og það var ekki gert í þeim ríkisstjórnum sem tóku við eftir það, nema fyrir árið 2013 en þá var í fyrsta skipti stigið skref til að auka niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði, ef ég man rétt um 150 millj. kr. af fjárlögum síðasta árs. Það var jafnframt tekið fram af þáverandi stjórnarmeirihluta að það væri fyrsta skrefið af þremur til að fara í þessa jöfnun. Það var í fyrsta skipti, virðulegi forseti, árið 2013 sem þetta var gert. Höfum það í huga.

Ég bið hæstv. ráðherra og aðra að halda sig til hlés meðan þessi ræða er flutt. Það er venja hér á Alþingi að sá sem er í þessum stól hafi orðið en ekki aðrir. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Tilurð þessa frumvarps má rekja til fundar ríkisstjórnarinnar síðustu sem haldin var á Ísafirði 5. apríl 2011 þar sem samþykkt var að unnið yrði að því með samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum að leita leiða til að lækka og jafna húshitunarkostnað. Í kjölfar þess var skipaður starfshópur sem fékk það hlutverk sem ég gat hér um og er frekar kveðið á um í skipunarbréfi.

Þetta var hópur sem vann góða vinnu og skilaði tillögu til þáverandi iðnaðarráðherra. Ég get ekki séð að hópurinn hafi endilega verið pólitískur, og þó var hann töluvert pólitískur, og komu fulltrúar þar inn. Þeir skiluðu tillögum sínum í þrennu lagi, gerðu þrjár tillögur. Ein af þeim tillögum var að leggja 10 aura gjald á hverja selda kílóvattstund á Íslandi til þess að leggja í þennan jöfnunarsjóðspott sem ég ætla að fagna, þeirri ákvörðun fyrrverandi ríkisstjórnar, tillögum starfshópsins og því frumvarpi sem hér kemur fram þótt ég hafi ákveðnar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir nú, þ.e. hvernig á að fjármagna þennan jöfnunarsjóð. Við það gerir ég athugasemdir, eins og nokkrir hv. þingmenn, flokksbræður mínir tveir hafa gert í stuttum andsvörum.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að svara af hverju ekki voru lagðir 10 aurar á alla notendur, eða 17 teravattstundirnar sem framleiddar eru á Íslandi, þar með talið stóriðjuna sem ég tel að sé hægt vegna þess að það er almenn aðgerð. Ég tók eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að útskýra af hverju það var ekki gert, en einungis á að leggja á almenna notendur og þá er gjaldið komið upp í 30 aura.

Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um lækkun hjá þeim sem búa í dreifbýli, sem er mjög gott, og hækkun hjá þeim sem búa í þéttbýli og eiga að fjármagna hana. En stóriðjan með sín 80% af framleiddri raforku á Íslandi á að sleppa. Ég er ósáttur við það.

Það var hæstv. iðnaðarráðherra líka ósátt við. Hæstv. núverandi iðnaðarráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, vildi fara þá leið sem starfshópurinn lagði fram. Það kom fram í frumvarpi sem núverandi hæstv. forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, var fyrsti flutningsmaður að. Ég var á þeirri tillögu ásamt fleiri jafnaðarmönnum og þarna sé ég framsóknarmenn og vinstri græna o.s.frv. En hver skyldi hafa verið einn af sex flutningsmönnum sjálfstæðismanna, á því frumvarpi? (Gripið fram í.)Jú, hæstv. iðnaðarráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, sem vildi fara þá leið sem ég tel miklu heillavænlegri, að leggja þetta á alla kaupendur að raforku á Íslandi, þ.e. að fara 10 aura leiðina á hverja kílóvattstund.

Einhverra hluta vegna gat, að mínu mati, hæstv. ráðherra ekki útskýrt það í stuttum andsvörum áðan hvers vegna við ætlum að sleppa stóriðjunni.

Ég hefði talið það farsælli leið að leggja þetta á alla kaupendur að raforku á Íslandi til að ná sem breiðastri sátt um jöfnunaraðgerðina sem er í takt við aðrar jöfnunaraðgerðir sem við erum með, sama hvort það er í fjarskiptakerfinu eða gagnvart jöfnunarsjóði olíuvara, eins og getið er um hér. Við getum tekið upp svona jöfnunaraðgerðir á fleiri sviðum.

Ég spyr hæstv. ráðherra og bið hana að svara því á eftir þegar þessari umræðu lýkur hver rök hennar eru fyrir því að sleppa stóriðjunni og þar með hækka um 20 aura á hverja kílóvattstund á þá kaupendur sem kaupa þær 5000 gígavattstundir sem hér er talað um að leggja á. 500 af þeim eru forgangsorka sem á bara að bera 10 aura, en hinar 2.885 kílóvattstundirnar eiga að bera 30 aura.

Virðulegi forseti. Mér finnst vera mikill munur, mjög mikill munur, á þeim frumvörpum sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur núna sem iðnaðarráðherra og sem hún flutti sem óbreyttur þingmaður árið 2012 í framhaldi af því að hin pólitíska nefnd skilaði þessari tillögu.

Mér finnst þetta vera stóra spurningin og tek undir það með hæstv. ráðherra að ekki skal standa á því að á vegum okkar í atvinnuveganefnd verði farið vel í gegnum þetta frumvarp og ég mun meðal annars beita mér fyrir því að skoða verði hvers vegna stóriðjan á að sleppa.

Ég tel að það sé ekki sértæk aðgerð að leggja 10 aura á allar seldar kílóvattstundir í landinu. Ég tel að það sé almenn aðgerð og þar með erum við ekki að mismuna notendum, þ.e. stóriðju á móti einkaaðilum eða almenningi í landinu.

Grunnhugsunina tek ég algerlega undir og hún er mér að skapi, enda var þessari vinnu startað, eins og ég segi, í tíð síðustu ríkisstjórnar þó svo það hafi ekki tekist að ná nema fyrsta skrefinu, þeim 150 milljónum sem voru lagðar inn í þetta árið 2013, í fyrsta skipti frá árinu 2004. En þetta er það sem ég geri mestar athugasemdir við.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar neyddumst við líka til þess, eins og varðandi svo mörg önnur atriði sem ég hef áður gert að umtalsefni. Það var ekki með neinni gleði sem menn studdu ýmsar hækkanir skatta, niðurskurð í heilbrigðismálum, öldrunarmálum o.s.frv., það var ill nauðsyn eftir að landið var nánast farið á hausinn á haustdögum 2008. Eitt af því sem við lögðum til var orkuskattur sem er um 12 aurar á selda kílóvattstund og áttu að gilda til 31. desember 2012. Við neyddumst hins vegar til vegna ástands í ríkisfjármálum að framlengja þann skatt um þrjú ár, ef ég man rétt, en það var alltaf hugsunin hjá okkur sem unnum að þeim málum í nefndum og annars staðar á vettvangi þingflokka að hluti af þeim orkuskatti mundi trappast niður og hluti af honum fara inn í niðurgreiðsluna, jöfnunarsjóðinn, eins og hér er verið að leggja til. Við vissum um þessa peninga. Þennan orkuskatt borga allir notendur. Hvers vegna skyldum við ekki geta lagt 10 aurana á alla notendur, ég tala nú ekki um ef hæstv. ríkisstjórn mundi kannski fara í þennan orkuskatt eins og hún er alltaf að hæla sér af og hæstv. forsætisráðherra kemur varla upp í ræðustól án þess að tala um að hann sé að betrumbæta allt sem gert var á síðasta kjörtímabili, taka af skatta og hækkanir o.s.frv?

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Er það stefna núverandi hæstvirtrar ríkisstjórnar að leggja af þennan orkuskatt? Ef svo er, hvenær mun það frumvarp koma fram? Ef við ætlum að trappa hann niður og miða við það sem ég sagði áðan sem var hugsun síðustu ríkisstjórnarflokka um að hann mundi smátt og smátt koma inn í niðurgreiðslurnar í samræmi við tillögur þessarar nefndar, er þar borð fyrir báru. Með öðrum orðum þurfum við ekki að hækka um 30 aura á alla almenna notendur raforku í landinu. Þetta er að mínu mati ekki flóknara en það.

Það er annað sem ég geri líka athugasemdir við og enginn má taka það þannig að ég sé að tala gegn þessari jöfnunaraðgerð. Ég skal vera síðasti maður til þess, ég hef oft talað um þetta ásamt með jöfnun flutningskostnaðar, sem líka var komið á í tíð síðustu ríkisstjórnar undir handleiðslu þáverandi viðskiptaráðherra, hv. þm. Árna Páls Árnasonar.

Hér er nefnilega smeygt inn einum þætti þar sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að spara sér 240 milljónir í útlögðum kostnaði ríkissjóðs, þ.e. þær 240 milljónir sem lagðar eru árlega inn í niðurgreiðslujöfnunarsjóðinn, vegna þess að þessi skattheimta upp á 30 aura á að gefa það mikið að það fjármagnar algjörlega jöfnunarsjóðinn. Þá eiga 240 milljónirnar á síðasta ári að leggjast niður og renna inn í ríkissjóð.

Það er ein spurning mín til hæstv. ráðherra hvers vegna hún fer þá leið að ákveða að þær 240 milljónir sem eru búnar að vera þarna inni í 11–12 ár og hafa verið endurnýjaðar af öllum ríkisstjórnum, og sennilega fulltrúum allra flokka nema nýjustu flokkanna, eigi að renna til baka. Það hefur verið stefnumörkun um að setja þessar 240 milljónir árlega inn. Þær eru inni. Það er reiknað með þeim í útgjöldum ríkissjóðs. Af hverju eiga þær allt í einu að renna til baka núna?

Mér virðist við fljótan hugarreikning að ef 240 milljónirnar væru inni og ef sú leið hæstv. iðnaðarráðherra verður ofan á að leggja þetta eingöngu á almenning í landinu en ekki stóriðjuna mætti sá skattur lækka niður í 21 aur, um tæpa 10 aura. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra útskýri fyrir okkur af hverju þessar 240 milljónir eiga að detta út árið 2016, þetta framlag ríkissjóðs, þessi litla upphæð sem þó hefur verið öll þessi ár, hefur hangið inni þrátt fyrir erfiðleika og hefur ekki verið hróflað við og staðfest af fjórflokknum, við skulum bara nota það orð, sem hefur setið á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég fagna því skrefi sem hér er verið að fara, að við ætlum að jafna raforkukostnað hjá 10% landsmanna sem búa í dreifbýli og búa við hvað hæstan raforkukostnað. Þetta er jöfnunaraðgerð sem jafnaðarmaður eins og ég get ekki annað en tekið undir þótt ég hafi fyrirvara og spurningar. Ég mun líka fara með spurningar mínar inn í atvinnuveganefnd og kalla eftir útreikningum og frekari skoðunum hvað þetta varðar.

Með öðrum orðum fagna ég þessu frumvarpi. Ég fagna því að við ætlum að stíga þetta skref. Það skerðir lífskjör fólks, 10% landsmanna sem búa í dreifbýli, að búa við þann háa raforkukostnað sem þar er. Það skekkir lífskjör. Það veldur búseturöskun og hefur gert. Í frumvarpi sem ég hef gert hér að umtalsefni og var flutt og hefur verið flutt síðan skýrslan kom út eru tekin dæmi um upphitunarkostnað í dreifbýli og í þéttbýli. Þar sjá menn þetta og í raun og veru ætti ekki að þurfa annað en þá töflu til að sannfæra alla alþingismenn um að sanngjarnt er að jafna kostnaðinn. Hvernig við fjármögnum það eru hins vegar skiptar skoðanir um og gæti orðið að deiluefni milli flokka hvaða leið á að fara hvað það varðar.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvaða breyting hefur orðið á afstöðu hæstv. ráðherra frá því að hún var óbreyttur þingmaður og lagði áðurnefnt frumvarp fram (Forseti hringir.) til þess að vera nú iðnaðarráðherra og stjórna þessum málaflokki og leggja það frumvarp fram sem við erum að ræða.