143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[15:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér er flutt af hæstv. ráðherra er tvímælalaust skref í rétta átt og er til bóta. Það er í sjálfu sér ástæða til að staldra við og fagna því að þverpólitísk samstaða virðist vera um jöfnuð í þessum efnum. Við eigum ekki alltaf því láni að fagna að pólitískar fylkingar þvert yfir litrófið geti staðið saman að því að jafna út aðstöðumun sem landsmenn búa við, en það virðist nú sem betur fer vera á dagskrá í þessu tilviki. Það er fagnaðarefni. Svo má að sjálfsögðu ræða um og eftir atvikum deila um hvaða leiðir eru bestar til þess og hvernig á að fjármagna þá jöfnun.

Hér hafa menn þegar rætt það að hugmyndir voru uppi um það, og skýrslur og tillögur gengu út á það, að jöfnunin færi fram í gegnum gjaldtöku af allri seldri raforku og að sjálfsögðu nægja þá lægri fjárhæðir til að ná fram sambærilegum markmiðum um jöfnun. Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að það væri að mörgu leyti hin eðlilega nálgun í þessum efnum. Það væri „meiri jöfnun“ og ekki bara bundið við almenna notendur raforku. Það má líka velta fyrir sér hvaða hugmyndafræði liggur þar til grundvallar og kemur inn á orkuskattinn eða það gjald sem tekið var upp á síðasta kjörtímabili á alla selda raforku og selt heitt vatn miðað við sambærileg gjöld miðað við orkuígildi. Þessir frægu 12 aurar á kílóvattstund.

Hugsunin þar er sú að þjóðin njóti einhverrar sameiginlegrar rentu af þeim verðmætu auðlindum sem orkuauðlindirnar eru. Það er mjög nærtækt að ráðstafa einhverjum hluta þeirra tekna til að gera almenning í landinu — alla — sem jafnast setta gagnvart þessum gæðum. Þannig að mér hugnaðist að sjálfsögðu langbest sú nálgun að horfa á uppsprettu verðmætanna sem eru orkuauðlindirnar, að koma þar við einhverri skattlagningu eða gjaldtöku og ráðstafa því síðan með skilvirkum hætti til að gera landsmenn alla sem jafnsettasta.

Telji menn þá leið ekki færa, að ekki sé pólitískur vilji til þess, er hér getum við sagt plan B sem er að sjálfsögðu betra en núverandi ástand. Það er alveg á hreinu. Ég endurtek að ég fagna því að minni pólitískar deilur virðast vera uppi núna um að jafna aðstöðumun að þessu leyti en hefur kannski stundum verið áður.

Ég er svo gamall í hettunni að ég man ítrekað tilraunir, til dæmis tiltekinna stjórnmálaafla, til að fella niður jöfnun á olíudreifingu, að leggja af jöfnunarsjóð olíuvara. Við vorum að framlengja líftíma hans með lögum núna hér fyrir jólin. Við vorum líka að festa í sessi það fyrirkomulag sem komst á á síðasta kjörtímabili að jafna nokkuð flutningskostnað í landinu. Settum þau lög held ég þannig að nú gilda þau til 2020. Þá hefur frekar áunnist en hitt í þeim efnum að jafna að einhverju leyti aðstöðumun landsmanna hvað þetta varðar.

Þetta ætti að vera okkur minna viðfangsefni en var hér áður fyrr, m.a. vegna þess að þrátt fyrir allt hefur hitaveituvæðingu miðað nokkuð áfram í landinu. Það lækkar sífellt, sem betur fer, það hlutfall landsmanna sem ekki hefur aðgang að þeim gríðarlegu hlunnindum sem það eru að hita upp hús sín með ódýru vatni og er sjálfsagt komið niður í 8–9% af íbúðarhúsnæði í landinu með hitaveitu á Skagaströnd og nokkrum minni hitaveitum sem hafa komið til sögunnar á síðustu missirum, ég tala nú ekki um ef nokkuð stórt þéttbýlissvæði eins og Höfn í Hornafirði bættist við einhvern tímann á næstunni, ætti það enn síður að standa í mönnum að jafna aðstöðumun þess litla minni hluta landsmanna sem ekki nýtur þeirra gríðarlegu hlunninda sem aðgangur að hitaveitu er.

Að sjálfsögðu er raforkukostnaðurin, orkukostnaðurinn, einnig mikilvægur þegar kemur að samkeppnisstöðu almenns atvinnulífs, iðnaðar o.s.frv., bæði hvað varðar verð og ekki kannski síður gæði og að eiga kost á frífösun rafmagns og flutningsgetu og flutningsöryggi sem fullnægi þörfum. En það vantar því miður talsvert upp á það. Við erum ekki að gera okkur allt það mat úr þessari auðlind, við Íslendingar, sem við gætum ef við tækjum á tilteknum flöskuhálsum sem enn standa okkur fyrir þrifum eins og til dæmis að ekki skuli vera hægt að rafvæða nokkrar af fiskimjölsverksmiðjunum í landinu vegna þess að flutningskerfið býður ekki upp á afhendingu á þeirri orku. Það er auðvitað alger synd og algjör sorg. Á því þarf að taka.

Ástandið í þessum efnum eins og það var hér áður — bara rétt til að rifja það upp — var nokkuð sérkennilegt satt best að segja. Það var þannig að í reynd niðurgreiddu notendur á veitusvæðum Rariks í þéttbýli flutningskostnaðinn í strjálbýlinu. Þetta var kannski ekki eins mikið tiltökumál á meðan stór og fjölmenn þéttbýlissvæði tilheyrðu því dreifikerfi, meðan til að mynda Suðurnes voru enn á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þegar þau urðu að sjálfstæðu veitusvæði og fleiri þéttbýlisstaðir heltust úr lestinni var um nokkurt árabil ástandið þannig að það voru tilteknir minni þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni sem lentu þó á dreifuveitusvæði Rariks, þetta er fyrir tíma þéttbýlis- og dreifbýlisgjaldskráa, sem í reynd niðurgreiddu flutningskostnaðinn í hinu eiginlega strjálbýli. Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes, Akureyri, Húsavík og nokkrir fleiri þéttbýlisstaðir voru komnir með sínar eigin veitur eða voru í öðrum veitum, þá sat eftir dreifisvæði Rariks og það var í reynd þannig að þéttbýli þar borgaði niður flutningskostnaðinn út á dreifbýlissvæði áður en gjaldskránni var skipt upp. Ekki mjög sanngjarnt fyrirkomulag það, enda kveinuðu menn og kvörtuðu mjög. Ég man eftir miklum umkvörtunum, t.d. á Dalvík og víða, þar sem Rarik kom við sögu, annaðhvort beint sem dreifiaðili eða sem milliliður í dreifingu.

Þannig að þetta er tvímælalaust til bóta. Hér er þá verið að setja upp það fyrirkomulag að almennir notendur taki sameiginlega á sig byrðarnar af þessari jöfnun.

Ég held engu að síður að nauðsynlegt sé að fá einhverja vitneskju um það, ef ekki hér við umræðuna þá áður en Alþingi lýkur umfjöllun um þetta mál, m.a. í ljósi sögunnar. Ég heyri nú að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er að stinga orði að hæstv. ráðherra sem flutti hér gagnmerkt frumvarp eins og vitnað hefur verið til um að fara aðra leið, að láta alla kaupendur raforku taka þetta á sig sameiginlega áður en niðurstaða fæst um hvað eigi að gera með orkugjaldið.

Nú hefur núverandi ríkisstjórn ekki hróflað við þeirri framlengingu sem ákveðin var hér á árinu 2012, að það skyldi framlengt um einhver ár í viðbót. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur rifjað það upp alveg réttilega að menn sáu það alltaf fyrir sér að þar væri kominn til sögunnar tekjustofn sem gæti að hluta breyst í tekjustofn fyrir jöfnun innan kerfisins þegar ríkissjóður væri orðinn betur aflögufær um að missa einhverjar tekjur út úr þeim tekjupósti. Á meðan ákvað fyrri ríkisstjórn á árinu 2012 að auka í áföngum framlög til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Fyrsta skrefið í þeim efnum var, eins og kunnugt er, tekið í fjárlögum ársins 2013 þegar þær greiðslur voru hækkaðar um 175 milljónir, eins og dæmið stóð á því ári hefði þurft þrjá slíka áfanga til að ná nokkurn veginn aftur markmiðunum um jöfnun varðandi húshitunarkostnaðinn með raforkukyndingu sem slíkan. En dreifingarkostnaðurinn skiptir hér miklu máli. Það er að sjálfsögðu til mikilla bóta að taka á honum líka og jafnframt, því það er almenn ráðstöfun sem tekur til allrar raforkunotkunar, ekki bara til húshitunar.

Varðandi frumvarpið hefði ég viljað í allri vinsemd benda á að mér fyndist að greinargerð frumvarpsins hefði mátt vera ítarlegri og gera betur grein fyrir forsögu málsins í heild sinni og þar á meðal þeim skýrslum og þeim tillögum sem áður höfðu komið fram, jafnvel þó að hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að fara að einhverju leyti aðra leið í þessum efnum.

Eins er það athyglisvert að sjá það hér listað að samráðinu við gerð frumvarpsins hafi verið þannig háttað að það hafi verið við Orkustofnun, við Samorku og Hagstofu Íslands. Punktur. Ég hefði nú haldið að það væru nú ýmsir fleiri sem eðlilegt hefði verið að hafa þarna til samráðs svo sem eins og fulltrúa notendanna og á ég þá til dæmis við sveitarfélög og landshlutasamtök og eftir atvikum neytendasamtök og aðra slíka.

Herra forseti. Ég held að ég hafi komið þeim sjónarmiðum að sem ég vildi á þessu stigi málsins gera varðandi þetta mál. Þetta er að sjálfsögðu skref í rétta átt og ber að fagna því að vilji er til þess að jafna aðstöðumun í þessum efnum og um það virðist ekki þurfa að deila pólitískt. En að sjálfsögðu má skoða bestu færar leiðir í þeim efnum. Ein leið gæti að sjálfsögðu verið sú að notast við þetta jöfnunargjald á almenna notendur raforku á meðan ríkissjóður teldi sig þurfa á orkuskattinum í heild sinni að halda, en færa svo fjáröflunina í áföngum yfir í það að framlengja tilvist þess tekjustofns þannig að allir notendur orku í landinu, bæði raforku og heits vatns, tækju sameiginlega á því að jafna þennan aðstöðumun á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að í reynd væri þar um auðlindagjald eða auðlindarentu að ræða sem þjóðin tæki til sín með þessum hætti og endurráðstafaði svo að hluta til, eða þess vegna að öllu leyti, í það verkefni að jafna aðstöðumun landsmanna. Hann er gríðarlegur í þessum efnum.

Jafnvel þó kostnaður sé að verulegu leyti eða öllu leyti jafnaður gleymast oft þau miklu hlunnindi önnur sem því eru samfara t.d. að búa á svæðum sem hafa aðgang að hitaveitu varðandi svo marga aðra hluti sem ekki eru þó alltaf teknir með í reikninginn. Við getum tekið sem dæmi frístundabyggðir og það að hafa aðgang að heitu vatni í þeim, möguleika til iðnaðaruppbyggingar og iðnaðarþróunar og ótal margt annað sem menn fá ekki búandi á köldum svæðum þó svo kannski kyndingarkostnaður þeirra eða raforkukostnaður verði í auknum mæli jafnaður. Það er alveg nóg að búa í sjálfu sér við þann aðstöðumun fyrir hin köldu svæði að eiga ekki alla þá möguleika sem tengjast aðgangi að heitu vatni þó svo að ekki sé um verulegan kostnaðarmun að ræða líka.