143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:28]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hafði ekki hugsað mér að fara í aðra ræðu við 1. umr. þessa frumvarps, en eftir ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, 7. þm. Reykv. s., sá ég mig knúinn til að koma í ræðustól aftur og ræða málið frekar. Svo virðist vera sem eini maðurinn sem í raun og veru hefur miklar athugasemdir við frumvarpið, þ.e. jöfnunina, sé hv. þingmaður, það er þá einn stjórnarþingmaður móti þessu stjórnarfrumvarpi.

Ég ítreka það sem ég sagði áður, ég fagna frumvarpinu og þeirri leið sem er verið að fara þó svo að ég hafi fyrirvara um hvar á að sækja peningana, að það skuli ekki vera sótt til allra sem kaupa raforku, þ.e. 10 aurar á kílóvattstund þegar stóriðjan er með, eins og ég gerði grein fyrir í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var meðal annars að ræða að úti á landi væri ódýrara húsnæði og ódýrari húsaleiga. Nú veit ég ekki hvað hann hefur fyrir sér í því, hvaða staði á hann við, en ég held að ekki sé hægt að alhæfa svona vegna þess að að sjálfsögðu eru til staðir á landsbyggðinni þar sem er húsnæðisskortur og þar af leiðandi hátt leiguverð eða hátt íbúðaverð, þar sem uppsveifla er og uppgangur, atvinnulíf gengur vel. Auðvitað má finna svæði sem eru í miklum vandræðum þar sem atvinna er lítil og íbúðaverð lágt. Að leggja þetta saman á móti því, eins og mér fannst hv. þingmaður vera að gera í umræðu um frumvarpið, er náttúrlega algjörlega út í hött.

Hv. þingmaður sneiddi fram hjá því að ræða einn þátt sem er að búseta á landsbyggðinni, sama hvort það er í dreifbýli eða þéttbýli á landsbyggðinni, hefur mikinn aukakostnað í för með sér vegna flutningskostnaðar, sem er sífellt hækkandi og hefur hækkað mikið á undanförnum árum, bæði flutningskostnaður til landsins og svo frá aðaluppskipunarhöfninni á höfuðborgarsvæðinu og út á land. Til að bíta höfuðið af skömminni er það þannig að til viðbótar við flutningskostnaðinn leggst svo í langflestum ef ekki öllum tilfellum virðisaukaskattur til ríkisins ofan á vöruverð þegar flutningskostnaðurinn er kominn inn. Það má því segja að landsbyggðarbúar sem kaupa vörur, sambærilegar vörur og keyptar eru á höfuðborgarsvæðinu, leggi miklu meiri virðisaukaskatt til ríkisins en íbúar höfuðborgarsvæðisins gera af sömu vörutegund. Þetta ræddi hv. þingmaður ekki, sem betur fer.

Sá sem hér talar og fagnar þeirri leið að jafna eigi raforkukostnað á íbúum dreifbýlis og þéttbýlis fagnaði því mjög og hefur barist fyrir því alla sína þingtíð, ég byrjaði 1999, að tekin verði upp flutningsjöfnun á vörum innan lands. Það var eitt af því góða sem síðasta ríkisstjórn kom á, eins og ég gat um áðan. Flutt var frumvarp af þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Árna Páli Árnasyni, samþykkt af ríkisstjórn og samþykkt af stjórnarflokkunum um að taka upp flutningsjöfnunarsjóð. Í það var varið 200 milljónum og sem betur fer verður það gert áfram. Það voru einhverjar upplýsingar í byrjun þessarar hæstv. ríkisstjórnar um að það ætti að leggja sjóðinn af en þeim áhyggjum hefur verið eytt með því að framlengja lögin sem flutt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar til ársins 2020.

Það hefur líka borist í tal önnur jöfnun, eins og ég gat um, í fjarskiptum, og er talað um það í því frumvarpi sem ég flutti með hæstv. núverandi starfandi iðnaðarráðherra árið 2012, þar var getið um jöfnun í fjarskiptum og jöfnun í olíuvörum o.s.frv. Ef við því tökum umræðu um almenn lífskjör í landinu, sem ég hef gert á þessum fimm mínútum núna og andmælt þeirri framsetningu sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson setti fram, þá hef ég verið þeirrar skoðunar og er enn að við eigum á sem flestum sviðum í þessu litla landi, þótt það sé dreifbýlt, að geta jafnað lífskjör landsmanna meira.

Virðulegi forseti. Það væri gaman að fjalla um það sem kom fram nýlega þegar samið var um það einu sinni í kjarasamningum allra landsmanna að byggja upp Breiðholtið. Ég minnist þess ekki að í þeim kjarasamningum hafi verið gerð samþykkt um að byggja upp leiguhúsnæði (Forseti hringir.) eða ódýrt íbúðarhúsnæði fyrir lágtekjufólk annars staðar á landinu.