143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ganga betur eftir útskýringum hæstv. ráðherra á því sem ég kallaði sinnaskiptum eða þeirri miklu stefnubreytingu sem kemur fram í þessum tveimur frumvörpum, annars vegar þessu og svo hinu sem hún flutti sem þingmaður. Hún sagði að það að gerast meðflutningsmaður að frumvarpi til laga, í þessu tilfelli frumvarpi nokkurra þingmanna úr flestöllum flokkum, væri stuðningur við þá stefnu sem þar kæmi fram. Það er alveg rétt. Sú stefna sem kemur fram í því frumvarpi sem ég var meðflutningsmaður að var að taka tillögu nefndarinnar um 10 aura á hverja selda kílóvattstund og setja sem skatt á til þess að jafna kostnað í dreifbýli. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki hafa skýrt sjónarmið sitt um hvað hafi breytt afstöðu hennar hvað þetta varðar þannig að núna ætlar hún að leggja 30 aura á almenning í landinu, þá sem kaupa raforku fyrir utan stóriðjuna. Hvað hefur breyst? Ég er sammála hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, um að það er ákveðin stefna sem maður sýnir og sjónarmið með því að gerast flutningsmaður að frumvarpi til laga. Það kom sannarlega fram í frumvarpi sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er fyrsti flutningsmaður að og hæstv. ráðherra Ragnheiður E. Árnadóttir skrifaði ásamt mér og ýmsum fleirum þar undir.