143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þessi skýrsla er komin til umræðu hér á Alþingi og ég held að það sé eðlileg framvinda þessa máls. Alþingi hefur látið sig þetta varða og er eðlilegt að málið sé áfram hér til skoðunar í kjölfar þess nefndarstarfs sem skilað hefur af sér þessari skýrslu.

Ég held að það væri ákaflega mikilvægt að breikka starfið út eins og gert var í október 2012 og fá alla aðila að borðinu. Fyrir vikið höfum við hér sæmilega kortlagningu í formi skýrslunnar og bókana og sjónarmiða sem einstakir aðilar, þátttakendur í starfinu, hafa sett fram. Við höfum sæmilega kortlagningu á helstu viðhorfum og sjónarmiðum í þessum efnum og það er gagnlegt.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda síðan þessu verki áfram. Því er langt frá því lokið. Það er þó nokkuð sem þarf enn að gera til að við séum í góðum færum til að undirbúa og taka skynsamlegar ákvarðanir í þessum efnum. Það fyrsta snýr að áætlunargerð og mati á þörf fyrir bæði uppbyggingu og eins afkastagetu flutningskerfisins. Það er stórmál vegna þess að leiða þarf fram öll sjónarmið í sambandi við það hvers er þörf í raun og veru og hverra hagsmuna á að gæta í því. Vilja menn byggja upp kerfið með svo mikilli afkastagetu að það geti án tafar afhent mjög stórum notendum hvar sem er raforku eða vilja menn horfa meira til þarfa almenns markaðar og almenns atvinnulífs og líta á það sem frávik sem tekið verði á sérstaklega ef óskir um afhendingu á miklu magni raforku á einhverjum stöðum dúkka upp?

Í öðru lagi eru það kerfisáætlanir flutningsfyrirtækisins sjálfs og innleiðing þriðju raforkutilskipunar Evrópusambandsins sem væntanlega er fram undan. Það skiptir máli í þessum efnum og margt sem þar kæmi yrði til bóta varðandi stöðu kerfisáætlana og fleira í þeim dúr.

Í þriðja lagi vil ég nefna stjórnsýsluna á þessu sviði og spurninguna um ákvarðanatöku sem ég held að verði ekki undan vikist að skoða. Í því sambandi nefni ég þann möguleika að til sögunnar komi einhvers konar óháður aðili sem geti tekið ákvarðanir ef ágreiningur er uppi milli t.d. flutningsfyrirtækisins annars vegar og landeigenda, umhverfisverndarsamtaka, sveitarfélaga eða einhverra slíkra aðila hins vegar. Margt finnst mér benda til að skynsamlegt væri að hafa farveg fyrir það að skjóta að minnsta kosti slíkum stærri málum í óháðan úrskurðarfarveg, t.d. nefnd sem gæti verið skipuð óháðum oddamanni, hverrar niðurstöður gætu eftir atvikum verið kæranlegar ef menn vildu ekki una þeim. En núverandi fyrirkomulag og hlutverk flutningsfyrirtækisins eða fyrirtækjanna sjálfra í því sambandi er ekki vandalaust sökum þess að þeim er uppálagt í lögum að velja hagkvæmustu kosti og ekki endilega víst að þeir séu bestu aðilarnir til að leiða fram öll sjónarmið og taka aðra hagsmuni með í reikninginn því að hér þarf að setja víðari sjóndeildarhring fyrir framan sig en þann einan sem snýr að þröngt skilgreindum hagsmunum flutningsfyrirtækja eða orkukaupenda einna. Hér þarf líka að taka langtímasjónarmið, hagsmuni umhverfisverndar, annarrar nýtingar á landinu og landsvæðum eins og ferðaþjónustu o.s.frv.

Fyrst og fremst þarf hér að horfa mjög langt fram í tímann. Það má ekki byggja á skammsæju mati á mismunandi stofnkostnaði einum saman þegar tekin er ákvörðun um það hvort leiða eigi rafmagn í jörð eða um loft. Að sjálfsögðu þarf í fyrsta lagi að horfa til heildarlíftíma mannvirkjanna og það er jarðstrengjunum mjög í hag ef ekki er tekið þröngt stofnkostnaðarmat heldur heildarlíftími, rekstrarkostnaður og bilanatíðni yfir allan líftíma mannvirkisins og svo þarf og verður augljóslega að taka aðra hagsmuni með í reikninginn. Ég held að þó að okkur hafi miðað áfram í málefnalegri undirbyggingu undir skynsamlegt fyrirkomulag og skynsamlega ákvarðanatöku að þessu leyti séum við ekki komin þangað sem við þurfum að komast áður en stórar afgerandi og jafnvel óafturkræfar ákvarðanir verða teknar. Ég nefni þar sérstaklega hugmyndir um háspennulínur eða raflínur yfir miðhálendið. Mér finnst það algerlega ótækt að menn skuli vera á fullri ferð við að undirbúa loftlínur á því svæði meðan umbúnaðurinn um þessi mál er ekki kominn í betra horf. Ég spyr mig þeirrar spurningar, hvar og hvenær mundum við Íslendingar hafa efni á því að leiða önnur sjónarmið fram og leyfa þeim að hafa vægi við ákvarðanatökuna, ef þau kæmust ekki að, ef menn á annað borð ætla með raflínur yfir miðhálendið.