143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar og hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Hæstv. ráðherra kallaði eftir því að fá sem flest sjónarmið fram um málið og ég fagna því því að þetta er auðvitað stórmál. Ég hefði talið eðlilegt að hv. atvinnuveganefnd leitaði einnig til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og óskaði eftir því að sú nefnd tæki málið til sérstakrar umfjöllunar og skilaði þá umsögn eða einhverju slíku til hv. atvinnuveganefndar því að þetta snýst ekki aðeins um dreifingu rafmagns heldur er þetta líka stórt umhverfismál. Við höfum heyrt það í máli margra hv. þingmanna sem hér hafa talað að af loftlínum geti stafað sjónmengun og það hefur verið krafa náttúruverndarsamtaka og kemur fram hér í skýrslunni að fulltrúi Landverndar bókaði sérstaklega að mikilvægt væri að lagning raflína, hvort sem um væri að ræða jarðstrengi, loftlínu eða sæstrengi, yrði tekin fyrir í 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Flutningskerfin eru hluti virkjana og raflínur hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á umhverfi sitt og eru órjúfanlegur hluti af því heildarmati sem fara þar fram á áhrifum virkjunarhugmynda á náttúru- og menningarminjar, ferðaþjónustu og útivist, landslag og landslagsheildir. Það þarf svo sem engin sérstök geimvísindi til að átta sig á því. Það dugir hreinlega að fara austur á land og horfa á þau gríðarlegu mannvirki sem þar eru í kringum loftlínur frá Kárahnjúkavirkjun niður á Reyðarfjörð til að sjá að þetta hefur að sjálfsögðu ákaflega mikil áhrif á landsvæði og þarf að meta sem slíkt.

Ég fagna því að ætlunin er að móta hér stefnu og hlusta eftir öllum sjónarmiðum. Það er augljóst að mikil vinna liggur í skýrslunni, en eigi að síður er ljóst að það ber talsvert á milli fulltrúa í nefndinni um hvaða leið eigi að fara. Það eru ákveðin atriði sem allir geta fallist á, þ.e. að eðlilegt sé að kanna umhverfissvið hvoru tveggja jarðstrengja og loftlína óháð kostnaðarmun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, það getur auðvitað verið nokkuð víðtækt, við flugvelli og svo á svæðum þar sem veðurálag, ísingar og snjóalög eru mikil og jarðstrengur gæti aukið afhendingaröryggi.

Það sem er áhugavert að skoða er að það sem hefur kannski helst valdið deilum er kostnaðurinn við lagningu jarðstrengja annars vegar og loftlína hins vegar. Ég vil því taka sérstaklega fram að mér finnst mjög mikilvægt að þær hv. þingnefndir sem taka málin til umræðu skoði þá skýrslu sem Landvernd lét gera því að nú hefur ákveðin reynsla skapast í Evrópu af því að leggja 220 kílóvolta raflínu í jörðu, við erum auðvitað ekki með slíka reynslu hérlendis. Landverndarmenn hafa bent á að í Danmörku hafi verið lagðir slíkir jarðstrengir og kostnaðarmunur á þeim og loftlínum er ekki nándar nærri eins mikill og birtist í útreikningum Landsnets. Í Frakklandi er verið að leggja þessa háspennujarðstrengi á pari í kostnaði við loftlínur. Það skiptir máli að skoða. Landvernd lét vinna skýrslu og ef við skoðum þá skýrslu kemur fram að einungis sé 20% kostnaðarmunur.

Þetta er lítill tími til að tjá sig um stórt mál. Ég ítreka að mikilvægt er að þessi sjónarmið komi fram, að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki málið líka til umfjöllunar og að skýrsla Landverndar með nýjustu tölum um kostnað frá Evrópu sé tekin til skoðunar því að þetta er líka stórt umhverfismál.