143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

raflínur í jörð.

60. mál
[17:49]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn sem töluðu á undan mér sögðu er ástæða til að fagna því að þessi skýrsla sé komin fram. Ég vil byrja á því að fagna framsöguræðu hæstv. iðnaðarráðherra sem hún flutti í upphafi og fjallaði þar um mál sem hún hefur þegar hafið undirbúning á og vinnuhópurinn sameinast um að væri framför í að breyta lögum um og fleyta áfram í þinginu. Það er alls ekki þannig við lestur skýrslunnar að óánægja sé um öll atriði hennar og það sem kom mér á óvart þegar ég las nefndarálitið ofan í kjölinn er að það er ekki óskaplega langt á milli þeirra sem tala fyrir meiri en minni lagningu jarðstrengja og hinna sem vilja velja ódýrustu leiðirnar og þar af leiðandi kannski oftar loftlínurnar.

Ég get tekið undir með hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni sem fjallaði ágætlega um það rétt á undan mér að niðurstaðan hlýtur að einhverju leyti að byggjast á því að við veljum blandaða leið loftlína og raflína þar sem það er mögulegt því að, eins og hann rakti ágætlega í ræðu sinni og ég vil undirstrika, lagning jarðstrengja er alls ekki án umhverfisáhrifa. Það er kannski það sem stingur í augun þegar maður les nefndarálitið. Svo er það hitt sem hefur áður verið gert að umtalsefni og ég vil taka undir það og segja að það er dálítið kúnstugt að lesa þessa skýrslu og sjá hvað ber í milli aðila um mögulegan kostnað við lagningu raflína. Það ætti kannski að vera forgangsverkefni atvinnuveganefndar þegar hún fjallar um skýrsluna að reyna að fá nánari og skarpari sýn á það en vinnuhópnum tókst sem skilaði af sér skýrslunni.