143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

skipun nefndar um málefni hinsegin fólks.

29. mál
[18:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að þakka hv. framsögumanni þessa nefndarálits, Líneik Önnu Sævarsdóttur, og hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir að afgreiða þetta mál örugglega út úr nefndinni. Við hér á Íslandi höfum verið stolt af því að hafa oft verið í forgöngu varðandi aukin réttindi hinsegin fólks. Á síðasta kjörtímabili náðum við hér í gegn einum hjúskaparlögum og eins lögum vegna kynáttunarvanda þó að það orð sé afskaplega einkennilegt orð sem notað er yfir transfólk, að það sé fólk með kynáttunarvanda. En ég fagna því að fara eigi í þessa vinnu samkvæmt tillögu sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir flutti ásamt mér og tveimur öðrum þingmönnum úr Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Þá vil ég líka koma inn á að það var hollt að fá alþjóðlegan samanburð því að þó að við séum ánægð með okkur þá sýnir hann að við þurfum að standa okkur betur. Það eru þjóðir sem standa okkur framar í þessu og Bretar hafa náð að tryggja sem best réttindi hinsegin fólks. Mannréttindabaráttu lýkur aldrei. Það má alltaf gera betur og á ýmsum sviðum þurfum við að standa okkur betur.

Þá vildi ég líka koma inn á það hér að á Íslandi hefur mjög margt breyst á skömmum tíma. Jónína Leósdóttir skrifaði til dæmis bók hér fyrir jólin um samband hennar og fyrrverandi forsætisráðherra, hvernig þær treystu sér ekki til að opinbera það samband af ótta við að það hefði áhrif á pólitískan feril Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta var mikilvæg bók til að rifja upp hvað í raun og veru við getum náð miklum árangri á stuttum tíma ef við opnum hjörtu okkar og leyfum ekki fordómum að glepja okkur sýn. Ég man eftir því árið 1996 þegar hér voru samþykkt lög um staðfesta samvist. Guðrún Ögmundsdóttir hafði unnið mjög mikið starf hér í þinginu varðandi réttindi samkynhneigðra. Ég vil nota tækifærið og þakka Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrverandi alþingismanni, fyrir það merkilega starf sem hún leiddi hér sem stjórnarandstöðuþingmaður í þinginu og náði samstöðu um, sem hafði gríðarleg áhrif til breytinga í íslensku samfélagi.

Það er líka gott að muna að við búum í litlu landi þar sem breytingar geta átt sér stað hratt en Ísland er strjálbýlt land og það eru mjög litlar byggðir hér úti um allt land. Og þó að í dag sé auðveldara á höfuðborgarsvæðinu að vera samkynhneigður en var áður, eða hinsegin, og það eigi við víða um land, þá skiptir máli í aðgerðaáætlun sem hér á að fara í að taka mið af því að í litlum samfélögum getur verið erfiðara að njóta fullra réttinda og mannlegrar reisnar sem hinsegin einstaklingur en í því fjölmenni sem þó er hér á suðvesturhorninu og í sumum byggðarlögum úti um landið.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nefndarálit um þingsályktunartillögu um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks en þakka enn og aftur hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur og hv. allsherjar- og menntamálanefnd og vona að við göngum til atkvæða um þetta mál sem allra fyrst.