143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Nefndarálitið er að finna á þskj. 345 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Minnisblað barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti en við vinnslu þess var aflað umsagna frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 3. nóvember 2013. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 86/2013, um breytingu á viðauka um frjálsa fjármagnsflutninga við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 924/2009, um greiðslur í evrum yfir landamæri í bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð nr. 2560/2001 og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins ESB nr. 260/2012, um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum og um breytingu á reglugerð EB 924/2009.

Reglugerðirnar kveða á um annars vegar greiðslur í evrum yfir landamæri og einnig rekstrarsamhæfni greiðslukerfa á svæðinu. Reglugerðunum er þannig ætlað að tryggja að gjöld fyrir millifærslur í evrum milli landa á EES-svæðinu væru hliðstæð því sem gerist vegna millifærslna í evrum innan lands. Einnig er kveðið á um upplýsingar sem veitandi greiðsluþjónustu skal veita notendum til að liðka fyrir framkvæmd miðlana á greiðslum yfir landamæri.

Þó svo að reglugerðin fjalli ekki um greiðslur í öðrum gjaldmiðlum en evrum þá er heimilt að rýmka gildissvið hennar til annarra gjaldmiðla hafi viðkomandi ríki hug á því. Nefndin kannaði sérstaklega hvort tekið hefði verið til skoðunar að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar þannig að hún tæki almennt til greiðslna í erlendum gjaldmiðlum. Fram kom að umsagnaraðilar hafi verið sammála um að varhugavert væri að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar til annarra gjaldmiðla en evru. Slíkt hefði væntanlega neikvæð kostnaðarleg áhrif á notendur greiðsluþjónustu innan lands. Í ljósi þessa telur fjármála- og efnahagsráðuneytið að ekki sé ráðlegt að svo stöddu að útvíkka gildissvið reglugerðarinnar við innleiðingu í íslenskan rétt.

Innleiðing framangreindra gerða kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fjármála- og efnahagsráðherra í því skyni leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um greiðslur yfir landamæri í evrum, nr. 146/2004, til innleiðingar á ákvæðum reglugerðanna. Frumvarpið mun að líkindum koma til umfjöllunar i efnahags- og viðskiptanefnd. Ekki er gert ráð fyrir að innleiðing reglugerðanna muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnað eða stjórnsýslulegar afleiðingar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita, þann 10. desember 2013, hv. þingmenn Birgir Ármannsson formaður, Frosti Sigurjónsson framsögumaður, Árni Þór Sigurðsson, Sigurður Páll Jónsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.