143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu.

107. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar.

Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni umsagnir frá Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Landsvirkjun og Samtökum ferðaþjónustunnar.

Í tillögunni er lagt til að stjórnvöld og sveitarfélög komi á átaki til að efla atvinnulíf og skapa ný störf á Norðurlandi vestra með nýtingu raforku frá Blönduvirkjun. Einnig á að efla samkeppnishæfni svæðisins og undirbúa það fyrir uppbyggingu. Jafnframt verði unnið að markaðssetningu þess sem iðnaðarkosts, svo sem fyrir gagnaver.

Í greinargerð með tillögunni er bent á að á Norðurlandi vestra hafi störfum og íbúum fækkað mjög undanfarin ár. Samkvæmt upplýsingum Byggðastofnunar hefur íbúum fækkað um tæplega 1.000 milli áranna 1997 og 2010 en sú tala jafngildir um það bil íbúafjölda Blönduóss árið 2011 sem var þá um 880. Einnig kemur fram í greinargerðinni að sveitarfélög nyrðra hafi unnið að því að byggja upp gagnaver á Blönduósi. Staðhættir fela í sér mikla kosti fyrir gagnaver, svo sem nálægð við virkjun og umhverfisvæna og græna orku, þar séu góðar raforku- og ljósleiðaratengingar og náttúruvá sé lítil. Auk þess er bent á að byggingarland sé gott, lóð sé tilgreind í aðalskipulagi Blönduósbæjar, almenn og sértæk þjónusta sé til staðar innan 50 kílómetra frá lóðinni og alþjóðaflugvöllur innan 150 kílómetra.

Umsagnaraðilar taka jákvætt í efni tillögunnar en einnig er í umsögnum hnykkt á því að þörf sé á uppbyggingu atvinnulífs víðar á landinu og að margvísleg tækifæri á ýmsum svæðum verði að nýta.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn, hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þórunn Egilsdóttir og Haraldur Benediktsson.