143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

átak til atvinnuuppbyggingar í Austur-Húnavatnssýslu.

107. mál
[18:48]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefði verið eftirsóknarvert og spennandi að gera könnun meðal þingmanna um hvað kæmi fyrst upp í huga þeirra þegar Húnavatnssýslur eru nefndar.

Nýlega fengum við í hendur rit um stöðugreiningu 2013 varðandi byggðaþróun sem er fylgirit með stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, sem við munum ræða næstu daga hér á Alþingi. Margar gagnlegar upplýsingar koma fram þar um stöðu mála á landinu almennt og skýrslan segir mér að við megum engan tíma missa varðandi Austur-Húnavatnssýslu ef hún á ekki að detta niður í skilgreininguna brothætt byggð. Það er erfiðara að grípa í taumana þegar byggðarlag er komið niður í þá skilgreiningu.

Ég býst við að ýmsir forvígismenn Húnvetninga fyrri tíma mundu snúa sér við í gröfum sínum ef þeir fréttu að byggðarlag þeirra stæði í slíkum sporum. Eitt einkenni brothættrar byggðar er mikil fólksfækkun og svo sannarlega hefur orðið talsvert mikil fækkun íbúa í Austur-Húnavatnssýslu.

Annað einkenni er mikið brottfall kvenna en Húnvetningum er ekki alls varnað því þeim helst nokkuð betur á konum en víðast annars staðar á landsbyggðinni. Hins vegar getur skýringin verið sú að konurnar séu fluttar í burtu frá þeim og það skekkir auðvitað alla tölfræði. Vonandi er það þó ekki skýringin. Við vitum að konur eru meira í aðhlynningarstörfum og það hefur fækkað talsvert starfsfólki, bæði á sjúkrahúsinu á Blönduósi og einnig á Sauðárkróki.

Ýmsar staðreyndir tala sínu máli um hvernig staðan er í þessu byggðarlagi. Útsvarstekjur eru þær næstlægstu á landinu í Norðurlandi vestra og hafa haldist óbreyttar í sjö ár. Það er ekki mikið um að Húnvetningar fari í háskólanám og er það hlutfall einnig hvað lægst þar á landinu, en konurnar eru þó sýnu hlynntari námi en karlarnir þótt karlar skori reyndar nokkuð hátt þegar kemur að iðnmenntun. Það er einn alvarlegur hlutur er enn og það er nýskráning hlutafélaga og einkahlutafélaga en það er einnig hvað lægst á Norðurlandi vestra sem segir okkur að aðgerða er þörf í atvinnumálum.

Svo ég komi að einhverju jákvæðu verð ég að nefna að greiðslumark varðandi sauðfé er gott í Húnavatnssýslum og það er hvað hæst í Húnaþingi vestra á landinu. Hvað er það sem einkennir Húnavatnssýslur? Að mínu mati er það gras og víðerni og vissulega á að nýta sér það. Gras og grasnytjar eru að vísu ekki lengur taldar til sérstakra auðæfa eða taldar skapa mikla möguleika til hagsældar. Reyndar voru berglög og víðerni Húnavatnssýslu þess valdandi að þaðan komu helstu læknar þessa lands við dögun nýrrar aldar. Það er kannski von að fólk verði undrandi á því að ég skuli nefna að berglög hafi þarna áhrif á en þannig háttar til að berglög halla til landsins en ekki til sjávar þannig að vatn helst uppi á heiðalöndunum. Þar sem vatn er er gróður og þar sem er gróður er unnt að hafa skepnur. Húnvetningar lifðu mikið á sauðfé g seldu það jafnvel á fæti til Bretlands og fyrir það fengu þeir greitt með gulli og gátu því sent syni sína til náms erlendis. Þannig er komin skýringin á því að helstu og færustu læknar okkar voru af húnvetnsku kyni.

Ég legg það því fram í þetta púkk um atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu að skilgreina betur sérstöðu héraðsins, gróðurmikil og flott heiðalönd. Þá sérstöðu er unnt að nýta, bæði hvað varðar aukningu í landbúnaðarframleiðslu svo og margvíslega ferðamennsku.

Víðerni heiðanna er engu líkt. Þessi háslétta Íslands er stórkostleg að náttúrufegurð sem gefa ætti sem flestum tækifæri að njóta, hvort sem er gangandi, ríðandi eða akandi. Möguleikar eru óendanlegir til nýtingar varðandi ferðaþjónustu. En gleymum ekki að húnvetnskir bændur urðu að fórna heilmiklu af hinu frábæra gróðurlandi á Auðkúluheiði þegar Blönduvirkjun var gerð. Íbúar héraðsins voru sannfærðir um að orka eða afl virkjunar væri hagkvæm og gagnleg fyrir nærumhverfið. Blönduvirkjun væri ákjósanleg til eflingar atvinnu í héraði og möguleikar á mun fjölbreyttari störfum sköpuðust með komu Blönduvirkjunar. En hingað til hefur ekki verið staðið við þetta loforð, hingað til hefur orka Blönduvirkjunar ekki verið nýtt til hagsbóta fyrir Austur-Húnvetninga, því miður. Eins og ég rakti hér að framan hefði það verið hið eina rétta strax í lok síðustu aldar til að hnignunin hefði ekki haldið áfram.

Það er veruleg hagkvæmni fólgin í því að nýta orku sem næst virkjunarstað og komast þannig hjá löngum og dýrum flutningaleiðum með raforkuna. Nú verðum við að gera þá kröfu að ríkisstjórn taki höndum saman með heimamönnum og finni fjárfesta og fyrirtæki sem geta orðið að burðarási í þessu samfélagi. Forustumenn sveitarfélaga nyrðra hafa um árabil unnið með innlendum og erlendum aðilum að uppbyggingu gagnavers á Blönduósi. Heimamenn hafa lagt mikið á sig til að kynna möguleika varðandi slíkt fyrirtæki.

Erlendir úttektaraðilar völdu Blönduós líka sem einn besta kost fyrir gagnaver hér á landi. Já, ég segi það. Yfirvöld heima hafa unnið mikið og gott starf til að kynna staðhætti fyrir fjárfestum og fyrirtækið Morgan Stanley valdi Blönduós sem áhugaverðan stað fyrir gagnaver og að þeirra mati er Blönduós ein besta staðsetning fyrir gagnaver á Íslandi. Kostirnir eru nálægðin við Blönduvirkjun, góðar rafmagns- og ljósleiðaratengingar, byggingarsvæðið er í eigu sveitarfélagsins og það er komið á aðalskipulag Blönduósbæjar, engin náttúruvá eða lítil og svæðið er utan við helstu eldgosa- og jarðskjálftasvæða landsins. Það er sannarlega ómetanlegt að Blönduósbær á um 128 hektara lands sem talið er að þurfi undir stórt gagnaver og það þarf því ekki að fara í neina samninga við landeigendur eins og víða í öðrum sveitarfélögum.

Svo er oft kalt á þessum mel ofan og sunnan við Blönduós og þar blæs stundum nöpur norðanátt. Norðanáttin er bölvuð en svo merkilegt sem það er þá er kuldinn kostur fyrir gagnaver.

Frummælandi minntist á að alþjóðlegur flugvöllur væri í 150 kílómetra fjarlægð en það er líka lítill flugvöllur við hliðina, þarna rétt hjá. Það er ekkert langt síðan hann var í notkun og sannarlega væri hægt að efla hann og gera betur úr garði.

Þá vil ég nefna að Blönduós er ekki einangrað sveitarfélag eða afskekkt né í útjaðri einhvers svæðis. Greiðar samgöngur eru til staðarins og þar í kringum. Eitt sem skipulagsfræðingar telja sérstaklega eftirsóknarvert við skipulag byggða og varðandi atvinnumöguleika yfirleitt er greið umferð svæðisins og ekki síst þegar unnt er að mynda hringakstur, en þannig háttar til þarna að það er stutt á milli þéttbýlisstaðanna Skagastrandar og Blönduóss og með tilkomu Þverárhlíðarvegarins er komin hringakstursleið um byggðakjarnana fjóra, Blönduós, Skagaströnd, Sauðárkrók og Varmahlíð. Öflugt fyrirtæki, sama á hvaða þéttbýlisstaðnum það væri, mundi í raun örva alla þessa staði svo og mannlífið.

Einnig ættu þessar greiðu samgöngur um lokkandi héruð að gera ferðamennsku eftirsóknarverða í auknum mæli Svo er saga þarna við hvert fótmál, saga sem þyrfti að gera miklu betri skil. Fáir gera sér til dæmis grein fyrir því að elsta mannvirki á Íslandi er í Húnavatnssýslum, Borgarvirki.

Í mínum huga kæmi líka til greina að nýta orku Blönduvirkjunar heima í héraði til matvælaframleiðslu. Heimurinn kallar á meiri mat. Eins og ég hef lýst að framan eru Húnavatnssýslur einstök matarframleiðsluhéruð og slíka sérstöðu ber að nýta, en heimamenn hafa lagt vinnu í undirbúning og uppbyggingu gagnavers og treyst á að slíkt fyrirtæki yrði burðarás samfélagsins. Við eigum að styðja þá í þeirri viðleitni, enda kostir, eins og hér hefur verið talað um, fyrir það fyrirtæki mjög góðir.

Til að allt gangi upp varðandi atvinnuuppbyggingu í Austur-Húnavatnssýslu þarf að sameina krafta ríkisstjórnar, Landsvirkjunar og heimamanna. Hefjumst handa. Aðstæður leyfa ekki bið eða drátt á slíkri ákvörðun.