143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.

39. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. (Vilhjálmur Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta við ummæli hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar. Ég hef hér í höndum yfirlit yfir fólksfjölda í íslenskum sveitarfélögum. Þar kemur fram strax uppi í Mosfellsbæ verulegur ójöfnuður milli kvenna og karla, þ.e. þar sem hallar á konur. Það eru færri konur strax þegar komið er í Mosfellsbæ en verulega fleiri konur í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þetta ójafnvægi milli kvenna og karla, þess sér merki hér á landi á jaðarsvæðum alveg eins og Færeyjar og Grænland mundu flokkast undir jaðarbyggðir á Vestur-Norðurlöndum.

Ég held að þetta sé ekkert gamanmál, þetta er full alvara. Ég hef mínar skýringar á þessari þróun. Ég ætla ekki að rekja þær hér í stuttu máli, en ég vænti þess að þegar gögn liggja fyrir verði kannski hægt að segja örlítið meira. Þetta snýr í stuttu máli að atvinnutækifærum fyrir alla.

Ég hef lokið máli mínu að sinni.