143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

227. mál
[19:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 305/2011, frá 9. mars 2011, um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 89/106/EBE.

Með reglugerðinni er stefnt að því að tryggja að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um eiginleika byggingarvara með tilliti til þeirra grunnkrafna sem mannvirkjum er ætlað að uppfylla, svo sem um öryggi og hollustu. Þá er með reglugerðinni jafnframt stefnt að því að skapa grundvöll fyrir frjálsu flæði byggingarvara innan Evrópska efnahagssvæðisins með því að samræma aðferðir, kröfur og hugtakanotkun. Þó að reglugerðin byggist að meginstefnu til á fyrirliggjandi kerfi felur hún í sér ýmsar breytingar í átt að frekari skýrleika.

Með það fyrir augum að setja sérlög um byggingarvörur og tryggja þar með skýra lagastoð reglugerðarinnar hefur umhverfis- og auðlindaráðherra lagt fram frumvarp til laga um byggingarvörur. Hin nýju lög munu m.a. leysa af hólmi þau ákvæði laga nr. 160/2010, mannvirki, sem varða viðskipti með byggingarvörur. Um efni frumvarpsins vísast að öðru leyti til framsögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra með lagafrumvarpinu.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis með þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara samhliða samþykki lagafrumvarpsins um byggingarvörur, en þau lög innleiða reglugerðina hérlendis.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.