143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

viðbótarbókun við samning um tölvubrot.

228. mál
[19:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið, og líst vel á. Ég ætla að vera til friðs í bili.

Ég mælist til þess ef það er hægt, virðulegi forseti, að málið fái líka umfjöllun hv. allsherjar- og menntamálanefndar þar sem hér er farið inn á stjórnarskrárvarin réttindi og svoleiðis. Það er ágætt kannski að það fái víðtækari umræðu þar. Sömuleiðis langar mig að spyrja að auki, þótt svör við þessu komi kannski fyrst fram í nefnd, mig langar að vita hvernig staðan sé á því núna, þ.e. hvort hætt sé við því að netþjónustufyrirtæki verði gerð ábyrg fyrir einhverri svona tjáningu.

Það sem ég hef smááhyggjur af er að ef sá þjónustuaðili sem ekki endilega hýsir vefinn eða vettvanginn, hver sem hann er, sem hýsir eitthvað ljótt og ógeðslegt, þá sé netfyrirtæki eða eitthvert annað fjarskiptafyrirtæki gert ábyrgt fyrir því þannig að krafist sé af því að það ýmist grípi til aðgerða eða sé refsað á einhvern hátt með sektum eða einhverju því um líku. Þá er þetta náttúrlega raunverulega orðið hálfgert eftirlitshlutverk vegna þess að ekkert mál er að benda á eitthvað ljótt á netinu og finna þann sem hýsir það, það er í sjálfu sér ekkert mál. Þótt það sé ekki virkt eftirlit af hálfu yfirvalda finnst mér alla vega mjög óþægilegt að milliliðir séu gerðir ábyrgir. Þess vegna langar mig svolítið að byrja þá umræðu alveg strax hvort hætt sé við því að netfyrirtæki eða fjarskiptafyrirtæki, annað en hýsingaraðilinn sjálfur, sé hugsanlega ábyrgt fyrir ummælum annarra.