143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða störf þingsins í orðsins fyllstu merkingu og vekja athygli þingheims á grein eftir Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Greinin heitir „Raunhæf skynsemi eða stefnufálm? Samband þings og framkvæmdarvalds við undirbúning opinberrar stefnumótunar“.

Greinarhöfundur gerir samanburð á löggjafarstarfi á Íslandi og í skandinavísku löndunum á þingárunum 2011 og 2012. Þar kemur fram mikill mismunur hvað Ísland varðar. Vald embættismanna ráðuneytanna virðist vera miklu meira við lagasetningu þar en hér. Prófessorinn vitnar til erlendra sérfræðinga um að það stuðli sennilega að vandaðri löggjöf en það rímar sannarlega ekki við þá lýðræðishefð sem við Íslendingar viljum hafa í heiðri og veljum fremur en embættismannavald.

Á Alþingi er því iðulega haldið fram, sérstaklega af stjórnarandstöðu á hverjum tíma, að hér ríki óþolandi ráðherraræði og að Alþingi sé stimpilstofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Þetta er fjarri lagi ef marka má upplýsingar Gunnars Helga. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sömdu ráðuneytin öll lagafrumvörp sem urðu að lögum 2011 og 2012 en einungis 61% af lagafrumvörpum á Íslandi fékk þá meðferð.

Þá segir Gunnar Helgi að nefndastigið á Alþingi virðist vera vettvangur mun meiri endurskoðunar en í Skandinavíu, frumvörp á Íslandi breytist um 20% í meðförum þingsins, fjórum sinnum meira en í Danmörku og tíu sinnum meira en í Noregi.

Á þessu sést að á nefndasviði Alþingis fer fram mjög virkt og öflugt starf hjá þingmönnum og nefndarriturum. Til hamingju, þingmenn.