143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um sérkennslu í skólum landsins. Þar kemur fram að hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem njóta sérkennslu hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár og um 27% nemenda voru í sérkennslu á síðasta skólaári.

Í umfjölluninni kemur fram að hlutfallið sé hæst meðal drengja í 5. bekk, en tæp 36% þeirra hafa verið í sérkennslu, en hlutfall meðal stúlkna sem fengið hafa sérkennslu í 5. bekk er um 24%.

Eftir 5. bekk dregur úr sérkennsluþörfinni og þegar nemendur eru komnir upp í 10. bekk eru um 25% drengja í sérkennslu og rúm 17% stúlkna.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að við eigum frábæra kennara í íslenska skólakerfinu sem leggja sig sífellt fram við að koma til móts við nemendur sína. Ég ætla einnig að leyfa mér að segja að undanfarin ár hefur verið mikið skorið niður til menntamála, a.m.k. þar sem ég þekki til, en mér finnst umræðan um þá staðreynd ekki hafa verið næg. Mér finnst sú staðreynd mjög alvarleg þar sem skólakerfi landsins byggist upp á að hugsa um og fræða þau sem eru okkur dýrmætust, þ.e. börnin okkar.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að grunnskólarnir eru á vegum sveitarfélaganna en ég tel og ég veit að margir eru sammála mér í þeim efnum og eflaust margir ósammála að vitlaust hafi verið gefið í fjármagni með flutningi skóla frá ríki til sveitarfélaga. Einnig verður að horfa til þess að grunnskólinn hefur breyst mikið á undanförnum árum og meðal annars með einsetningu og skóla án aðgreiningar. Fleira er hægt að telja til.

Á undanförnum árum hefur greiningum á nemendum jafnframt fjölgað og misjafnt hvaða greiningu um er að ræða og misjafnt hvort nemendur fá stuðning eða ekki. Álagið er mikið í grunnskólum landsins en að starfa sem kennari er dásamlegt starf. Það veit ég vel. Börn eru svo sannarlega gefandi einstaklingar sem hafa kennt mér mikið. (Forseti hringir.) Skoðun mín er sú að koma verði á átaki milli ríkis og sveitarfélaga til að byggja upp skólakerfið og tryggja þannig nægt fjármagn í það góða skólastarf sem hér er unnið til hagsbóta fyrir nemendur, skólana og starfsfólkið.