143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér í umræðu þeirra hv. þingmanna sem hafa komið inn á verðlagshækkanir. Það tengist að sjálfsögðu umræðu um afkomu heimilanna í landinu í stærra samhengi.

Hv. þm. Elín Hirst ræddi áðan um framtak Alþýðusambands Íslands þar sem Alþýðusambandið hefur haft frumkvæði að því að birta lista yfir fyrirtæki sem vilja taka þátt í að reyna að halda aftur af verðhækkunum í kjölfar kjarasamninga. Það er að sjálfsögðu gott svo langt sem það nær en það vekur óneitanlega athygli að meira og minna allt árið 2013 styrktist gengi íslensku krónunnar mjög mikið gagnvart öllum gjaldmiðlum, kannski minnst gagnvart evrunni, sennilega um 7% eða þar um bil, en allt upp í um 25% gagnvart japönsku jeni. Síðan er gengið þarna á milli gagnvart öðrum gjaldmiðlum eins og bandaríkjadollar og bresku pundi.

Þetta hlýtur að vera tilefni til að velta því fyrir sér hvort íslenskir neytendur og íslenskir launþegar hafi fundið fyrir þessari breytingu í betri kjörum. Ég dreg það mjög í efa og mér finnst fullkomin ástæða til að vakt sé staðin hvað þetta varðar. Það er fínt að Alþýðusambandið geri það en það þarf miklu meira átak. Í raun ættu menn ekki að standa vörð um að fyrirtækin hækki ekki verð á þjónustu í kjölfar kjarasamninga heldur hvort þau hefðu ekki örugglega lækkað verð í kjölfar þess að íslenska krónan hefur styrkst þetta mikið á undanförnum mánuðum og á öllu síðasta ári.

Þetta finnst mér áhyggjuefni. Ég kalla eftir því að menn, þá jafnvel einnig hið opinbera, (Forseti hringir.) taki ákveðin skref til að fylgja þessu (Forseti hringir.) miklu betur eftir en gert hefur verið.