143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við þingmenn Pírata erum að gera ýmsar tilraunir með beinna lýðræði. Ein af þeim tilraunum er kosningakerfi okkar á netinu þar sem hver sem er skráður inn í gegnum island.is, auðkenningakerfið, getur sett sig upp sem frambjóðanda, hver sem er getur greitt atkvæði um hvaða málefni koma fram og slíkt. Eitt af því sem við erum að gera í hinu víða samfélagi varðandi beinna lýðræði er að nota vefsíðuna betraisland.is þar sem allir Íslendingar geta sett inn hugmyndir og valið að koma þeim hugmyndum sem ná fyrst yfir 100 stuðningsmönnum í umræðu hérna á Alþingi. Þegar hugmynd kemst yfir 500 stuðningsmenn má kalla eftir upplýsingum, beiðni til ráðherra eða slíkt til að fá meiri upplýsingar um hvernig ná má málinu áfram. Ef hún nær yfir 1 þúsund má kalla eftir þingsályktunartillögu um að vinna málið áfram og ef stuðningur fer yfir 2 þúsund að leggja fram lagafrumvarp.

Ég tek stöðuna núna á vefnum betraisland.is og hún er þannig að fjórar hugmyndir eru komnar yfir 100 og ein komin yfir 200. Hugmyndin sem er með flest atkvæði er breyting á kosningalöggjöf, afnám 5% reglu. Það er kannski ekki skrýtið, það voru næstum 12% atkvæða þeirra sem mættu á kjörstað núna í vor sem féllu niður dauð. Annað er að fjarlægja ákvæði um kirkjuskipan úr drögum að stjórnarskrá sem fyrsta skref í átt að aðskilnaði. Þriðja er að hægt verði að kjósa á netinu í næstu sveitarstjórnarkosningum. Það sem er í fjórða sæti þeirra mála sem hafa náð yfir 100 stuðningsmönnum er að Ísland verði eitt kjördæmi.

Við munum halda áfram undir liðnum um störf þingsins að minna á þetta og benda fólki á að kíkja á betraisland.is, kjósa þessar hugmyndir ef því líkar við þær og þá getum við farið að nota fleiri verkfæri sem þingmenn til að koma (Forseti hringir.) hugmyndum í vinnslu hérna á þinginu og jafnvel sem þingsályktunartillögur og lagafrumvörp.