143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú í byrjun árs kom frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu niðurstaða greiðsluafkomu ríkissjóðs frá janúar, nóvember 2013, og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þetta, sérstaklega vegna þeirrar umræðu sem var hér fyrir áramót út af því hver niðurstaða síðasta árs yrði. Þetta er enn ein staðfestingin á því að því miður er langur vegur frá því að sú áætlun sem var kynnt í tengslum við síðustu fjárlög stæðist. Samkvæmt síðustu fjárlögum fyrir árið 2013 var það kynnt að niðurstaðan væri halli upp á 3,7 milljarða. En það er algjörlega staðfest að við erum að sjá það að raunhallinn var um 30 milljarðar hefði ekki verið gripið til neinna aðgerða, en það var sem betur fer gert.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé mjög mikilvægt að við tölum út frá þessum staðreyndum og það sé líka mjög mikilvægt að við séum meðvituð um að það vantar mikið upp á að við séum að ná aga í ríkisfjármálum og opinberum fjármálum. Agi er forsenda þess að við náum árangri. Ég vek líka athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að sveitarstjórnarkosningar eru í vor og það er mjög mikilvægt að kjósendur og fjölmiðlar og aðrir fylgist með því hvernig stjórnmálamenn haga sér í aðdraganda kosninga, því að enn þá erum við á þeim stað, og það er langt frá því sem við þekkjum í þeim löndum sem við berum okkur saman við, að stjórnmálamenn eru að lofa allra handa hlutum, jafnvel að setja það í fjárlög og fjárhagsáætlanir sem engin innstæða eru fyrir. Reikningurinn verður alltaf sendur á fólkið í landinu bæði með auknum sköttum og sömuleiðis með því agaleysi sem gerir það að verkum að erfitt er að hafa tök á ríkisfjármálum.