143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[15:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar hæstv. ráðherra er búinn að fylgja úr hlaði tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 2014–2017, sem ég ætla að ræða betur í almennri ræðu á eftir, ætla ég að nota mér það tækifæri sem gefst í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra og fjalla aðeins um 4. kafla, um opinbera þjónustu, þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Á tímabilinu 2014–2015 verði réttur landsmanna til grunnþjónustu í öllum landshlutum skilgreindur á helstu sviðum opinberrar þjónustu, svo sem að því er varðar heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntun“ o.s.frv.

Fleira er talið þar upp. Því er ég alveg sammála eins og mörgu í þessu plaggi. Oft hefur verið rætt um grunnþjónustu. Tökum dæmi um það sem við köllum almenna grunnþjónustu; aðgengi að fullkominni heilsugæslu, heilbrigðisþjónustu. Hún verður ekki veitt á öllum stöðum á landinu.

Sumir staðir, sem verða skilgreindir eins og gert er ráð fyrir í þessu plaggi, munu ekki njóta þess sem við teljum vera lágmarksþjónustu; t.d. varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu, framhaldsskólum, sem ríkið rekur, eða öðru á viðkomandi stöðum.

Spurning mín er þessi: Þegar við verðum búin að greina grunnþjónustuna og í ljós kemur að hún er ekki nógu góð á ákveðnu svæði, telur hæstv. ráðherra að íbúar þess ættu jafnvel að fá að greiða lægri skatt eða hafa aðgang að sameiginlegum jöfnunarsjóðum til þess að ferðast um langan veg, t.d. til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar sem hún gerist best?