143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:00]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hv. þingmaður deilir þeirri skoðun minni og margra hérna í þingsalnum að það er mjög mikilvægt að við förum yfir með hvaða hætti við getum tryggt að opinber grunnþjónusta sé veitt með sambærilegum hætti um land allt. Af því að heilbrigðisþjónustan var nefnd held ég að einn liður í því væri til að mynda að setja í gang þverpólitíska vinnu í framhaldi af greiningunni, ekkert ósvipað og var gert í þinginu varðandi löggæslumálin, og yfirfara grunnþjónustuna í heilbrigðiskerfinu, þarfagreina hana á hverju svæði, skoða hvernig hún ætti að vera og hefja síðan uppbygginguna út frá niðurstöðunni.

Það gæti orðið afleiðing af þeirri byggðastefnu sem ég kynnti að yrði unnin í framhaldinu og byggðaáætlun sem kæmi aftur í þingið að hámarki að tveimur árum liðnum, að tekið yrði á þessum þætti, að á þeim svæðum þar sem ekki væri hægt að veita grunnþjónustu mundu þeir sem þar búa njóta þess með einhverjum hætti í skattkerfinu, ekkert ósvipað og menn hafa gert í Noregi.

Það er eitt af þeim atriðum sem við vorum með til skoðunar í haust en ákváðum að hafa ekki inni í byggðaáætlun, heldur vildum við hafa betri grunn til að byggja á ef menn færu fram með slíkar tillögur. Það sama gildir um kostnað við að sækja þjónustuna, athugað verður hvort til greina kæmi að jafna það með einhverjum hætti. Allt það hlýtur að koma til skoðunar því að markmiðið er alveg klárt, þ.e. að allir landsmenn sitji við sama borð hvað varðar grunnþjónustu hins opinbera.