143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektirnar við það mál sem ég ræddi í andsvarinu, sem snýr að þeim þáttum sem þessi kafli fjallar um; að skilgreina rétt allra landsmanna til grunnþjónustu á þeim sviðum sem ríkið og hið opinbera veitir. Eins og ég sagði áðan þá verður ekki rekinn framhaldsskóli á hverjum stað af ríkinu en við getum gert það í gegnum jöfnunarsjóði og jöfnunaraðgerðir til náms þannig að það verði sami kostnaður fyrir íbúa hvort sem hann kemur frá Kópaskeri og fer í framhaldsskóla í Reykjavík og fyrir íbúa í Reykjavík sem gengur yfir götuna í framhaldsskóla sem ríkið rekur.

Þess vegna fagna ég því mjög sem ráðherra sagði áðan þar sem hann tók undir það sjónarmið sem ég hef lengi haft, að það ætti að gera það með þessum hætti því að að sjálfsögðu verður ekki öll opinber þjónusta rekin á öllum stöðum, það er bara ekki hægt, en það má jafna það á þennan hátt.

Ég hef lengi haft þá skoðun og er mjög skotinn í þeirri byggðastefnu sem rekin er í Noregi, hún er unnin dálítið merkilega og er skemmtilega sett upp. Þar hafa menn farið leiðir sem við höfum oft talað um hér en enginn hefur þorað að fara í, hugmyndin hefur í raun aldrei fengið hljómgrunn en hún gengur út á að beita skattkerfinu til þess að jafna þann aðstöðumun sem er milli fólks eftir búsetu á landinu.

Svar hæstv. ráðherra við spurningu minni í þessu andsvari finnst mér gott innlegg í vinnu nefndarinnar. Ég mun að sjálfsögðu halda þessum sjónarmiðum fram og hef þar með stuðning hæstv. ráðherra sem ég þakka enn á ný fyrir.