143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi sóknaráætlanirnar er mikilvægt að halda til haga að þar var verið að reyna að koma þeirri framkvæmd í gang að heimaaðilar hefðu meira að segja um ýmsa þætti eins og úthlutun styrkja, menningarsamninga og ýmislegt fleira í þeim dúr. Þar var líka verið að vinna að almenningssamgöngum og hefur tekist að gera verulegar skipulagsbreytingar sem mér finnst að þurfi að fylgja eftir. Maður hefur svolitlar áhyggjur af að þetta týnist, en það má ekki. Ef við skoðum það sem hér er þá held ég að markmiðin, eins og um gagnanetið, séu óbreytt frá því sem var hjá fyrri ríkisstjórn. Það eru þó nokkuð mörg dæmi um það. Það er athyglisvert einmitt það sem hæstv. ráðherra nefndi um fjárlögin, sumt var dottið út en var bjargað á milli umræðna eins og t.d. með fjarskiptasjóð. Flutningsjöfnunin er sett inn á þann hátt að nú verður hún borguð eftir á, þess vegna er ekki fjárveiting í fjárlögum, en menn ætla að reyna að halda henni sem betur fer.

Varðandi raforkukostnaðinn fara menn í nýjar útfærslur, en þar var byrjað að stíga skref til þess að ná betri jöfnuði. Þetta styð ég allt heils hugar að verði gert, en meira máli skiptir að það verði framkvæmdir, það verði gengið til verka. Það má líka segja um samgöngurnar, að sjá þar úrbætur sem fyrst í framkvæmd, og má nefna eins og hér er gert sérstaklega Austurland og ekki síst Vestfirði. Það skiptir mestu máli.

Ég nefni aftur brothættar byggðir. Upphæð til þess verkefnis fór út í fjárlagafrumvarpi en kom sem betur fer inn aftur. Ég held því að verkin skipti meira máli en þetta.

Uppsetningin að öðru leyti er orðin hefðbundin, menn setja meginmarkmið og síðan aðgerðir og hver ber ábyrgð á þeim, það er komið í flestar framkvæmdaáætlanir. En ég tek undir með hæstv. ráðherra, við þurfum að stíga skrefið lengra og gera stærri áætlun um það hvernig við getum varið dreifða byggð í landinu og hvað ætlum við að verja á hverju svæði fyrir sig.