143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja hér orð í belg á þeim tíu mínútum sem menn geta við framlagningu þingsályktunartillögu um þá tillögu sem er til umfjöllunar, þ.e. stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017.

Slíkar tillögur hafa alltaf komið fram með reglulegu millibili allan þann tíma sem ég hef setið á Alþingi frá 1999. Ég held að ég hafi tekið þátt í umræðum um þær allar, stundum verið ánægður með þær, stundum óánægður, oftast nær verið ánægður með hvað sett er fram um markmiðin og áformin en oft og tíðum óánægður eða svekktur yfir hvernig hlutirnir hafa gengið eftir. Þannig er það, virðulegi forseti, og vafalaust verður það svoleiðis áfram. Það verður að segjast eins og er að menn hafa verið hræddir eða ekki viljað eða ekki haft kraft í sér til þess að fara í byggðaáætlanir sem bragð er að. Þegar ég segi byggðaáætlanir sem bragð er að hika ég ekki við að gera það sem ég gerði að umtalsefni í stuttu andsvari hér áðan og fjalla um hvernig nágrannaþjóðir okkar gera hlutina í byggðamálum eins og enn einu sinni er getið um í athugasemdum við einstakar tillögur á bls. 9 þar sem fjallað er um stuðning við einstaklinga í Noregi. Þar segir að áratugalöng reynsla sé af sérstökum stuðningsaðgerðum fyrir íbúa og fyrirtæki á afmörkuðum svæðum sem glíma við fólksfækkun. Skipta má stuðningsaðgerðunum fyrir einstaklinga í þrjá flokka. Þá er talað um afslátt á tekjuskatti, með leyfi forseta:

„Afsláttarfyrirkomulagið nær til allra launþega á svæðinu. Um er að ræða þrenns konar frádrátt. Í fyrsta lagi viðbótarpersónufrádrátt á fyrstu tvö skattþrepin (15.000 og 30.000 nkr. á ári). Í öðru lagi lægri „fellesskatt“ eða 10,55% á móti 14,05% annars staðar í Noregi. Í þriðja lagi 2 prósentustigum lægri hátekjuskatt (kemur á laun yfir 471.200 nkr.) en annars staðar.“

Svo segir áfram, með leyfi forseta:

„Það er samdóma niðurstaða þeirra úttekta sem hafa verið gerðar að þetta afsláttarform sé auðvelt í framkvæmd og hafi almenn jákvæð áhrif fyrir íbúaþróun á svæðinu. Einnig er bent á að lægri skattprósenta sé mikilvægasti liðurinn af þeim þremur sem um ræðir.“

Síðan er líka talað um afskrift af námslánum. Það er þekkt að fólk sem hefur farið í langskólanám fari út á land á ákveðin svæði og fái ákveðinn afslátt af námslánum sínum við það að búa á viðkomandi svæðum og þjónusta þau með menntun sinni og starfskröftum.

Hér er líka fjallað um uppbót á barnabætur, stuðning við fyrirtæki o.fl.

Virðulegi forseti. Ég vildi óska að okkur tækist nú loksins að taka þessa þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun og prjóna við hana eitthvað af þeim aðgerðum sem nágrannaþjóðir okkar hafa þróað með sér lengi, gera annað en að leggja þetta bara fram sem stefnumótunarplagg. Það skiptir engu máli hvort það er núverandi ríkisstjórn sem hefur sett slíka áætlun fram eða síðustu ríkisstjórnir, þar með talin síðasta ríkisstjórn sem ég studdi, það vantar að koma áætlunum í framkvæmd. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort við sem sitjum í atvinnuveganefnd höfum stuðning hans til þess að vinna þetta plagg út frá þessum norsku tillögum og öðrum góðum tillögum sem við þekkjum og vitum um og setja sem stefnumótun í þetta plagg, eða er það eins og stundum var — ég ætla ekki að segja að það sé — að plögg sem koma frá ríkisstjórn séu heilög og þeim megi lítið sem ekkert breyta? Það sem hefur breyst undanfarin ár á Alþingi er að sjálfstæði nefnda er orðið meira. Þetta vildi ég gjarnan heyra þó svo að ég hafi heyrt jákvæðar undirtektir hæstv. ráðherra hér áðan við spurningu minni í stuttu andsvari.

Virðulegi forseti. Það eru hér nokkrir kaflar en eins og ég segi gefst ekki tími á tíu mínútum við fyrri umræðu að fara í gegnum þetta allt saman. Ég á sæti í atvinnuveganefnd og þar munum við fara yfir þetta eins og við höfum venjulega gert.

Í kafla 1.3. um bættar samgöngur, sem er stóra málið, verð ég að taka undir það sem þar kemur fram. Sagt er að sérstök áhersla verði lögð á framkvæmdir á Vestfjörðum og Austurlandi. Það er alveg í takti við núverandi byggðaáætlun. Þegar ég var formaður iðnaðarnefndar beitti ég mér fyrir því. Það var samþykkt samhljóða á Alþingi og var þá sett inn í síðustu byggðaáætlun að leggja áherslu á sunnanverða Vestfirði og göng til Seyðisfjarðar. Þetta voru einu staðirnir — jú Neskaupstaður auðvitað, en þar eru framkvæmdir hafnar við Norðfjarðargöng. Ef ég tek sunnanverða Vestfirði, Patreksfjörð, Tálknafjörð, Bíldudal og svo aftur Seyðisfjörð þá hef ég sagt og skal segja einu sinni enn að þetta eru þau byggðarlög sem búa við hvað verstar og erfiðastar samgöngur til sín árið 2014. Þess vegna á að leggja höfuðáherslu á þessi svæði.

Ég er sammála því sem kemur fram í kaflanum. Eins og segir eru hafnar framkvæmdir við Norðfjarðargöng, sem betur fer. Seyðisfjarðargöng bíða en þola ekki langa bið. Það er í takti við samþykkt Alþingis í síðustu byggðaáætlun að leggja áherslu á framkvæmdir þar og að þeim verði að flýta og koma framar í þá röð sem hefur verið talað um. Sem betur fer eru miklar framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum þó að þar sé enn eftir stór og mikill kafli, þ.e. framkvæmdir við eða í gegnum Teigsskóg, sem alltaf hefur verið erfiður og mikið þrætuepli og gengur okkur því miður allt of hægt hvað það varðar.

Síðan ætla ég að leyfa mér að nefna eitt atriði sem er í þessum kafla þó að ég geri mér grein fyrir því að þá hreyfi ég við ýmsum. Í e-lið er talað um að flugvöllur í Reykjavík verði áfram í nálægð við stjórnsýslu og aðra þjónustu. Ég er alveg sammála því. Ég hef áður skipst á skoðunum við hæstv. innanríkisráðherra sem situr í salnum og hlustar á þessa umræðu, sem er mjög gott, og verð því að segja að flugvöll í Reykjavík lít ég ekki á sem flugvöll uppi á Hólmsheiði þó að það sé í Reykjavíkurkjördæmi. Það tel ég engan valkost á móti Vatnsmýri. Við getum bara tekið sem dæmi nokkra óveðursdaga undanfarna daga þar sem þjóðvegurinn hefur meira að segja verið nánast ófær upp að Hólmsheiði. Hvernig væri þá að vera með flugvöll þar? Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti.

Áður en ég vík frá samgöngukaflanum verð ég líka að segja að það eru vonbrigði hve litlu fé verður varið til hefðbundinna vegamála á næstu árum miðað við síðustu ár, svo maður tali ekki um hrunárið og árin þar á eftir þegar verulega var gefið í, mikið framkvæmt, líka sem liður í atvinnusköpun þá hefur dregið mjög úr og verður því miður að segjast eins og er að það er frekar lítið ef ekki með því minnsta sem sett er þar inn ef frá eru taldar framkvæmdir fyrir lánsfé til að gera Vaðlaheiðargöng, sem verða borguð upp með veggjöldum, og stórframkvæmdir við Norðfjarðargöng, enda sér maður það, virðulegi forseti, ef menn skoða fréttir af framkvæmdum Vegagerðarinnar þá er töluvert langt síðan komið hafa fréttir sem boða útboð í vegamálum.

Inn í bættar samgöngur blandast auðvitað flutningar á vörum til og frá landshlutum. Það gerði ég hér að umtalsefni og hef gert það áður að sem betur fer tókst í tíð síðustu ríkisstjórnar að koma á flutningsjöfnunarkerfi. Ég sá það einhvers staðar í þessu plaggi að talað er um að efla það. Því miður eru bara 200 milljónir settar í það en við skulum vona að þegar fjárhagur ríkissjóðs fer að batna og batnar vonandi á næstu árum með auknum umsvifum og auknum hagvexti í landinu þá getum við aukið þar í.

Það er eitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um í kafla 2.3. ef hann heyrir til mín, um stuðning við fyrirtæki. Ég skil ekki alveg það sem talað er um í b-lið um jöfnun flutningskostnaðar, sem ég gerði að umtalsefni. Þar er líka talað um stuðning sem snýr að jöfnun flutnings, orku og fjármagnskostnaðar. Ég átta mig ekki alveg á hvernig fjármagnskostnaðurinn kemur þarna inn í en vafalaust er einhver góð hugsun á bak við hvað það varðar og langar mig í seinni ræðu hæstv. ráðherra að fá að heyra hvað það er.

Í tillögunni er líka talað um skattaívilnanir á borð við lækkun tryggingagjalds til að styðja við fyrirtæki á efnahagslega veikum svæðum. Þetta er nákvæmlega sama og við vorum að ræða hér áðan og ég gerði að umtalsefni gagnvart einstaklingum um hugsanlega lægri tekjuskatt, meiri persónuafslátt eða hvernig sem við útfærum það. Það væri enginn vandi að útfæra þetta ef ákvörðun væri tekin. Þarna er talað um tryggingagjaldið og ég er sammála því líka vegna þess að það er mjög mikill aðstöðumunur á fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi sem þurfa að færa til sín og (Forseti hringir.) hreyfa til sín frumvörur sem þarf að vinna úr, (Forseti hringir.) bæði héðan frá uppskipunarhöfninni og út á land. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta var mitt fyrst innlegg (Forseti hringir.) á þessum tíu mínútum um þetta stóra og mikla mál.