143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, en það er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem lagði hana fram.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni skal unnið að stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017. Meginmarkmiðið með framkvæmd áætlunarinnar verði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Þá verði lögð áhersla á að aðgerðir samkvæmt áætluninni stuðli að auknu jafnrétti kynjanna.

Þessu fagna ég og mér finnst jákvætt að þau skref séu stigin. Þeir sem búa úti á landi borga sömu skatta og þeir sem búa í höfuðborginni eða í nágrenni hennar. Sumir sem búa á vissum svæðum á landsbyggðinni búa í dag við skerta þjónustu þrátt fyrir að borga sömu skattprósentur til samfélagsins og þeir sem búa nálægt höfuðborginni eða jafnvel í henni.

Í því samhengi er hægt að nefna samgöngur sem eru víða í ólestri á landsbyggðinni. Einnig er hægt að nefna háan orkukostnað í dreifbýli og á köldum svæðum og mjög svo stopult internet eða símasamband á vissum svæðum á landsbyggðinni.

Í heild sinni er ég mjög ánægð með þau atriði sem byggðaáætlunin tekur á og ég vil í því samhengi minnast á nokkra þætti sem ég tel mjög jákvæða.

Í fyrstu vil ég minnast á uppbyggingu fjarskiptakerfisins. Það finnst mér mjög mikilvægt. Við sjáum ferðaþjónustu sem vaxandi atvinnugrein víða um landið. Þeir sem vinna að ferðaþjónustu treysta talsvert á internetið þar sem ferðamaðurinn skipuleggur oft ferðalög sín í gegnum netið. Fyrirtæki á landsbyggðinni sem búa við lítið eða ekkert internetsamband eiga erfitt með að keppa við fyrirtæki í þéttbýli sem hafa greiðan aðgang að þokkalegu internetsambandi, en markaðssetning ferðamálafyrirtækja og þeirra sem starfa við ferðaþjónustu fer að miklu leyti fram á internetinu.

Einnig er í því samhengi hægt að minnast á dreifnámið víða um landsbyggðina, sem gefur ungmennum tækifæri á að búa ögn lengur í heimahúsum. En til þess að dreifnáminu sé skapaður grundvöllur sem hægt er að treysta á þurfa internetsamband og gagnamagnsflutningar að vera í lagi.

Orkukostnað finnst mér mikilvægt að jafna því að mér finnst ekki í lagi að þeir sem eiga heima í dreifbýli eða á köldum svæðum borgi miklu hærri orkukostnað en gerist í þéttbýli. Þetta hefur verið mikið rætt á fundum í til dæmis Norðvesturkjördæmi og eflaust líka í fleiri landsbyggðarkjördæmum. Þetta er mikilvægt mál fyrir þá sem búa á landsbyggðinni og fagna ég því mjög að lagt hafi verið fram frumvarp á dögunum varðandi þau mál.

Auk þessa er komið inn á samgöngur og meðal annars lögð áhersla á vegaframkvæmdir á Vestfjörðum. Því fagna ég verulega því að samgöngur eru víða í ólestri fyrir vestan og má þar til að mynda nefna Vestfjarðaveg nr. 60 og samgöngur á milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða, en mikilvægt er að komið sé á öruggum samgöngum um vegi Vestfjarða upp á örugga þjónustu við byggðirnar og það er löngu kominn tími til að koma samgöngumálum um Vestfirði á hreint.

Í byggðaáætluninni er komið fram með sértækar aðgerðir á varnarsvæðum og tel ég það vera nauðsynlegt þar sem við viljum standa vörð um og efla smærri byggðir landsins. Í þingsályktunartillögunni er tillaga um að jafnvel væri hægt að styðja við vel menntaða einstaklinga til að flytja á veik svæði eða í brothættar byggðir. Það gæti til dæmis verið möguleiki á því þar sem hefur verið mikill læknaskortur í ýmsum byggðum landsins, samkvæmt þessu gæti verið möguleiki á að vera með einhverjar ívilnanir til að fá þá til starfa á landsbyggðinni. Það gæti jafnvel orðið bót á læknaskorti og skorti á öðrum menntuðum einstaklingum, ég ætla ekki að fara að taka eina starfsstétt út en datt þetta í hug þar sem það hefur töluvert verið í umræðunni.

Einnig er komið inn á að styðja vel við bakið á fyrirtækjum sem hefja starfsemi á veikum svæðum, m.a. með því að lækka tryggingagjaldið en ýmis fyrirtæki hafa kvartað undan háu tryggingagjaldi og gætu þar með séð hag sinn í að flytja starfsemi sína út á land og lækka þar með gjaldið.

Auk þessara atriða sem ég hef minnst á í framsögu minni eru ótal önnur atriði sem ég er ánægð með. Ég get raunar sagt að ég sé ánægð með alla þætti þingsályktunartillögunnar og ég fagna því að hér sé um að ræða framkvæmdaáætlun en ekki óskaplagg.