143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Kjarninn í byggðaumræðunni er sá að við hættum að tala um höfuðborgarsvæði og landsbyggð og gerum okkur grein fyrir því að við eigum ekki að tala um landsbyggð í eintölu heldur landsbyggðir í fleirtölu.

Eitt af því sem hefur verið vandamál í þessari landsbyggðarumræðu hefur einmitt falist í því að menn hafa horft á svæðið utan höfuðborgarsvæðisins sem nánast eitt og einsleitt svæði með sams konar þarfir og sams konar möguleika. Þannig er því ekki farið. Við verðum að átta okkur á því að möguleikarnir og þarfirnar eru mismunandi á landsbyggðinni og þess vegna verðum við að nálgast vandann með það fyrir augum að takast á við hann með margvíslegum hætti eftir því sem aðstæður bjóða upp á.

Ég fagna því að hér liggi fyrir tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir næstu fjögur ár. Það var í sjálfu sér ekki sjálfgefið að slík tillaga kæmi fram vegna þess að á síðasta kjörtímabili var það m.a. boðað, þó að af því yrði sem betur ekki, að ekki yrðu lagðar fram fleiri byggðaáætlanir, það ætti að fella þær inn í einhverjar stærri heilsteyptari áætlanir og byggðaáætlun væri einhvers konar hluti af því.

Svona tal höfum við svo sem heyrt oft áður. Menn hafa talað um að búa eigi til eina byggðaáætlun fyrir landið í heild. Í því felst tilraun til að draga úr því sem við höfum mjög mörg lagt áherslu á hér á Alþingi og mikill meiri hluti þingmanna, sem er að viðurkenna að það þurfi að hafa sérstaka byggðastefnu og raunar byggðastefnur til að takast á við það sem er eitt mesta þjóðfélagsmein okkar tíma, vandann sem víða er uppi í byggðum landsins.

Núverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, Þóroddur Bjarnason prófessor, hefur einmitt vakið athygli á því sem ég hóf mál mitt á áðan að við eigum að tala um landsbyggðir en ekki landsbyggð. Það er vegna þess að aðstæður eru mjög mismunandi. Þær eru annars konar í nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins þar sem gætir áhrifa höfuðborgarsvæðisins til góðs og ills, eða þá í byggðum sem eru fjær, sem búa kannski við samgöngulega einangrun, sem búa við mjög einhæft atvinnulíf, sem búa við slakt aðgengi að framhaldsmenntun, háan húshitunarkostnað o.s.frv., og sem búa við alls konar vandamál sem eru jafnvel óþekkt á landsbyggðinni nær höfuðborgarsvæðinu.

Þegar við skoðum íbúaþróun á landsbyggðinni hefur hún í heild sinni verið jákvæð en hún hefur verið ákaflega mismunandi og fólksfjölgun á landsbyggðinni í heild hefur auðvitað ekki fylgt fjölguninni á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur samt sem áður í heild sinni orðið fólksfjölgun en hún hefur bara orðið miklu minni sums staðar annars staðar. Því miður hefur verið um að ræða búferlaflutning, nettóbúferlaflutning frá þessum svæðum.

Þess vegna tel ég að eitt mikilvægasta ákvæðið í þeirri tillögu sem hér getur að líta sé þessi setning úr fyrstu málsgrein hennar, þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta: „Sérstök áhersla verði lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.“

Hérna er vísað til þess sem er sárasti og erfiðasti vandinn í byggðaþróun í landinu. Það þarf mjög mikinn pólitískan kjark í raun og veru til þess að bregðast við vandanum á þessum svæðum, því að þetta felur í sér skilaboð um það að við ætlum að taka með öðrum og sérstaklega markvissum hætti á vanda þessara litlu byggða. Dæmi um slíkt er það sem Byggðastofnun hefur kallað verkefnið Brothættar byggðir, en er bara lítill angi af þessum vanda.

Við sjáum að neikvæð byggðaþróun hefur t.d. orðið á Vestfjörðum í heild sinni þó að síðustu árin, vegna uppbyggingar í atvinnulífi á einstökum stöðum, hafi orðið þar einhver viðsnúningur sem er sannarlega fagnaðarefni og uppörvandi. Vestfirðir eru sem sagt dæmi um þetta. Önnur svæði í Norðvesturkjördæmi eru líka dæmi um þetta, Norðvesturlandið gamla, hluti af Vesturlandi, á norðausturhorninu og á Suðausturlandi. Þetta eru ekkert mjög stór svæði, þetta eru ekki mjög fjölmenn svæði en byggðalegur vandi þar er hins vegar mjög alvarlegur.

Það er ekki mikið átak fyrir okkur að takast á við þetta vegna þess að þetta hagkerfi í heild sinni er ekki mjög stórt, íbúarnir eru ekki mjög margir, en mun þýða að við stjórnmálamenn verðum að standa í lappirnar og segja: Þessi svæði verða að fá einhvern forgang sem önnur svæði munu þá ekki njóta. Það getur orðið erfitt í öllum kjördæmum, í landinu í heild kannski, að útskýra að þannig ætlum við að takast á við málin. Ef það er ekki gert tökumst við í raun og veru ekki á við vandann þar sem hann er sannarlega sárastur eins og sakir standa.

Ég fagna þess vegna að í þessari tillögu eru lagðar til sérstakar aðgerðir á svokölluðum varnarsvæðum, sem eru m.a. þau svæði sem ég hef verið að vísa til. Ég held að það sé mjög mikilvægt að t.d. í starfi atvinnuveganefndar verði lögð fram greining á íbúaþróun á einstökum landsvæðum innan landsbyggðanna til þess að við sjáum hvað er um að ræða, hvaða svæði það eru í raun og veru sem við ætlum að koma til móts við með þeirri stefnumótun sem fram kemur í tillögugreininni. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því og hvernig við ætlum að gera það.

Hérna er talað um verkefnið Brothættar byggðir, sem er ákaflega mikilvægt. Það er líka talað um markmið eins og að fjölga vel menntuðum einstaklingum á þessu svæði og að fjölbreytt atvinnustarfsemi geti dafnað á efnahagslega veikum svæðum. Allt eru þetta gríðarlega mikilvæg mál.

Ég nefndi sérstaklega í þessu sambandi fjölgun á vel menntuðum einstaklingum á varnarsvæðum landsins. Það tengist dálítið þeirri umræðu sem fór fram áðan um það hvernig ætti að reyna að nýta skattalega hvata í þessum efnum.

Ég er gamall eins og á grönum má sjá og á sínum tíma leiddi ég nefnd sem var sett á laggirnar í tengslum við kjördæmabreytinguna 2003. Við hv. þm. Kristján L. Möller og fleiri sátum í þeirri nefnd, og þá skoðuðum við mjög vel þessi skattalegu tæki. Niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja ekki til miklar tillögur í þeim efnum, m.a. vegna þess að lögð voru fram rök um að þetta væri á margan hátt tæknilega erfitt og það varð ekki pólitísk eining um þessar leiðir. Ég vil þó segja eitt sem er ákaflega merkilegt og það er að það varð sameiginleg niðurstaða nefndarinnar á einu sviði í þessum efnum. Það var að nota hvata til þess að fjölga menntuðum einstaklingum á landsbyggðinni með því að gefa afslátt á endurgreiðslu á námslánum.

Þessi hugmynd er síðan reifuð hérna. Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er að niðurstaðan er sú að þar sem þetta hefur verið notað, t.d. í Noregi, hafa engin vandamál komið fram í framkvæmd þessa afsláttar. Og það var einmitt niðurstaða okkar í þessari nefnd á sínum tíma að það væru engin vandamál. Við skoðuðum þetta mjög rækilega með Lánasjóði íslenskra námsmanna sem komst að sömu niðurstöðu og við, að það væri vandræðalaust að framkvæma þetta. Því miður varð síðan ekki um það pólitískur stuðningur á Alþingi til að þessu væri hrint í framkvæmd en hugsunin á bak við þetta var mjög einföld. Hún var þessi: Samfélagið er að breytast. Það eru miklu meiri kröfur um menntun og þekkingu til þess að geta byggt upp atvinnustarfsemi og staðið fyrir margs konar þjónustu á landsbyggðinni. Til að auðvelda það og hvetja til þess að menn kæmu til starfa með menntun og þekkingu á margvíslegum sviðum væri hægt að búa til þennan hvata í gegnum námslánakerfið til að fólk settist þarna að. Þetta gæti líka orðið til þess að laða að t.d. lækna, ýmsa sérfræðinga og aðra sem á hefur skort víða á landsbyggðinni.

Þess vegna held ég að það sé mjög áhugavert að skoða þessi mál núna í ljósi þessa, m.a. í ljósi þess að fyrir tíu árum var komist að þessari niðurstöðu. Þá sáum við að tæknilega séð var okkur ekkert að vanbúnaði að gera þetta en það vantaði kannski þann pólitíska stuðning sem þurfti.

Virðulegi forseti. Það er mjög margt gott í þessari tillögu. Auðvitað getum við sagt sem svo að orðin ein og sér dugi ekki mikið en orð eru þó alla vega til alls fyrst. Og við skulum líka taka bókstaflega þær tillögur sem hérna er verið að leggja til. Hérna er t.d. talað mjög afdráttarlaust um að stefnt verði í átt að fullum jöfnuði við kostnað við húshitun með greiðslum úr ríkissjóði. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt. Í gær var verið að ræða frumvarp sem má segja að hafi verið eitt skref í þessa áttina, rétt skref, en eftir stendur hitt sem er jöfnun á dreifingarkostnaði vegna húshitunar með rafmagni. Ég vil að minnsta kosti lýsa yfir mikilli ánægju minni með þennan þátt, sem gæti verið einmitt liður í því að styrkja forsendur og byggðir þar sem á hefur hallað, (Forseti hringir.) sem við höfum kallað varnarsvæði í byggðalegu tilliti.