143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

stefnumótandi byggðaáætlun 2014--2017.

256. mál
[16:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek mjög undir það sem hv. 6. þm. Norðaust., Valgerður Gunnarsdóttir, segir hérna. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir alla að hafa reynslu af því búa ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur ekki síður úti á landsbyggðinni.

Það sem ég var að tala um, þessa skattalegu hvata, ég tel nauðsynlegt að þau mál séu skoðuð til hlítar vegna þess að umræðan er heilmikil um þá. Ég var aðeins að rifja upp að við fórum í svona vinnu fyrir tíu árum, að sjálfsögðu hefur margt breyst síðan og reynslan kannski komið frá öðrum löndum og sjálfsagt mál að fara yfir þá hluti, en þá fengum við ábendingar um að það væru ýmis slík vandamál þessu samfara og þess vegna náðist ekki samstaða um að fara neitt mjög ítarlega í málið að öðru leyti. Þó var að því leyti sem ég nefndi áðan varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna talið mjög praktískt auðvelt að gera það ef menn vildu nota þetta sem tæki til að skapa tækifæri fyrir ungt og vel menntað fólk til að fara út á landsbyggðina.

Ástæðan fyrir því er sú að breytingin frá því sem var fyrir svona 20–30 árum er að samfélagið okkar er orðið miklu fjölbreyttara. Fyrir 20–30 árum var úti á landsbyggðinni miklu, miklu einhæfara atvinnulíf, miklu einhæfari starfsemi. Landið var allt miklu einhæfara. En samt sem áður togaði það til sín fólk á þeim tíma, t.d. á einstökum svæðum sem síðan hafa látið undan síga.

Þess vegna eru svörin við landsbyggðarspurningunum allt önnur núna en voru fyrir 20–30 árum Lykilorðið er með öðrum orðum fjölbreytni. Einn þáttur í því er uppbygging opinberrar þjónustu. Það er eðlilegt að landsbyggðin geri kröfu til þess að stærsti vinnuveitandi landsins, sem er ríkið, ríkissjóður, setji sína starfsemi líka niður úti á landsbyggðinni eins og á höfuðborgarsvæðinu. Það er réttlætingin á bak við kröfuna hjá svo mörgum okkar um að hugað verði að því að auka opinbera þjónustu úti á landsbyggðinni.