143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að mæla fyrir þingsályktunartillögu sem ég flyt ásamt flutningsmönnum úr öllum flokkum og ég vil taka fram að ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið liðsmenn úr öllum flokkum í þetta mál sem ég tel afar brýnt. Það snýst í raun um að við Íslendingar förum að fordæmi Breta og tökum upp einfaldar merkingar um næringargildi matvæla sem eru settar framan á umbúðir. Þetta er gert vegna þess að það þykir rétt að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun þegar þeir kaupa matvæli.

Því er réttilega haldið fram að fólk eigi að taka ábyrgð á eigin heilsu og eigin mataræði en ef upplýsingar um næringargildi og hollustu eru af skornum skammti og eru jafnvel misvísandi hvernig eiga þá neytendur að geta axlað ábyrgð á eigin mataræði? Dæmi eru líka um að matvæli, sem til dæmis innihalda mikinn sykur eða hátt hlutfall sykurs, séu á sama tíma með heilsufullyrðingum, t.d. vegna þess að varan inniheldur mikið af trefjum eða kannski minna af salti en gengur og gerist. Það hefur ekki vantað hingað til að framleiðendur haldi á lofti jákvæðum eiginleikum matvæla en oft hefur verið verulega djúpt á upplýsingum sem snúa að óhollustu. Þetta er í raun alvarlegt því að þetta kemur niður á heilsu fólks og eykur kostnað heilbrigðiskerfisins. Það er einmitt þess vegna sem Bretar hafa nú þegar innleitt einfalda merkingu sem hefur hjálpað neytendum og aðrar þjóðir eru að hugsa það sama og eru Ástralir til dæmis komnir nokkuð langt á veg.

Þær merkingar sem um ræðir eru þannig að það eru litir — grænt, gult og rautt til að gefa til kynna á einfaldan hátt hvort varan er holl, í meðallagi holl eða óholl. Það eru þessir litir sem skipta máli vegna þess að þegar fólk fer út í búð og grípur vöru þarf yfirleitt að snúa vörunni við, lesa aftan á ef upplýsingar um næringargildi eru þá yfir höfuð til staðar og klóra sig í gegnum það. Hugmyndin hérna er að með einföldum hætti sé hægt að sjá hvort vara inniheldur mikið salt, mikinn sykur eða mikla fitu.

Eins og staðan er í dag þá er þetta mjög erfitt og þá getur maður velt því fyrir sér af hverju stjórnvöld tryggja ekki að neytendur hafi allar upplýsingar sem máli skipta. Það geta verið margar ástæður fyrir því. Stjórnvöld eða löggjafarvaldið eru kannski ekkert sérlega áhugasöm um réttindi eða hagsmuni neytenda og síðan eru matvælaframleiðendur gríðarlega sterkur hagsmunahópur með margfalt meira fé á milli handanna en samtök neytenda eða lýðheilsusamtök ýmiss konar, eins og hjartasamtök og fleiri. Þegar verið var að innleiða nýja löggjöf Evrópusambandsins um merkingar á matvælum — sem við munum síðan innleiða vegna þess að við tökum meira og minna allar þessar tilskipanir upp hér, sem er gott vegna þess að þær eru yfirleitt neytendavænni en kannski ef íslensk stjórnvöld væru að brasa við þetta — þá börðust matvælaframleiðendur til dæmis mjög hart gegn því að þessi umferðarljósamerking yrði sett framan á matvæli, þ.e. að það yrði skylt, en það var krafa Neytendasamtaka og Lýðheilsusamtaka.

Ég er samt eiginlega á þeirri skoðun að eftir einhver ár eða áratugi verði þetta veruleikinn og að við getum þá innleitt þetta eftir 10 eða 20 ár en við getum líka ákveðið hér og nú að grípa til aðgerða, bíða ekki eftir Evrópusambandinu. Við getum verið viðbúin því að framleiðendur séu ekki endilega jákvæðir í fyrstu. Það er mjög mikilvægt að þeir séu samt með í þessum leiðangri vegna þess að þessi merking er valkvæð, það er ekki hægt að skylda framleiðendur til að taka þátt í henni. Framleiðendur hafa því miður oft verið frekar neikvæðir.

Ég man til dæmis þegar verið var að tala um að innleiða Skráargatið og fleiri slík mál, þá voru ýmis rök tínd til. Oft er því haldið fram að þetta sé dýrt og hækki vöruna sem bitni á neytendum eða þá að neytendur skilji ekki merkingarnar. Í þessu tilfelli eru menn búnir að rannsaka það að ástæðan fyrir að Bretar fóru út í þetta — það var heilbrigðisráðuneytið sem hélt utan um vinnuna — var einmitt sú að þeir rannsökuðu málið og í ljós kom að neytendur skildu þessa merkingu mjög vel og voru ánægðir með hana. Ástæðan fyrir því að fleiri framleiðendur ákváðu að vera með var að þeir sáu að neytendur voru ánægðir, þeir sáu að þetta þjónaði líka þeirra hagsmunum.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er rakið hvernig ferillinn var í Bretlandi. Þetta hófst fyrir um 10 árum og hefur gengið á ýmsu. En þó var það þannig að í fyrra, eða fyrir kannski rétt rúmu einu og hálfu ári, var tekin ákvörðun um að samræma merkingarnar. Það höfðu verið í gangi svolítið mismunandi merkingar á þessum litum og farið var í þá vinnu að samræma merkingarnar þannig að það er bara eitt útlit og það var heilbrigðisráðuneytið sem hélt utan um þá vinnu ásamt matvælastofnuninni bresku. Daginn sem þetta var tilkynnt, eða hvað eigum við að segja, gert opinbert, nýja merkið — það var í júní í fyrra — þá tilkynntu stórir framleiðendur í Bretlandi, Pepsico, Nestlé og fleiri, að þeir ætluðu að taka þátt og vera með. Það skipti líka töluverðu máli í Bretlandi að Tesco var á einhverjum tímapunkti búið að gera könnun meðal neytenda, Tesco er stór matvörukeðja, og þegar þeir sáu niðurstöðuna ákváðu þeir að stíga þetta skref líka. Við þurfum því ekki að finna upp hjólið heldur notum við í raun þá vinnu sem Bretar hafa þegar unnið sem auðveldar málið ansi mikið.

Mig langar aðeins að fara ofan í það af hverju það er mikilvægt að setja þessar upplýsingar fram á einfaldan og skýran hátt og af hverju mér finnst staðan í dag vera óviðunandi. Ég get tekið sem dæmi að sífellt er verið að segja okkur að við borðum of mikið salt og til eru opinberar ráðleggingar um hámarkssaltneyslu. Við erum beinlínis með fólk á launum við að segja okkur hvað við eigum að borða mikið eða lítið salt. Á sama tíma er okkur í raun gert ómögulegt að fylgja þessum ráðleggingum vegna þess að ekki er skylt að merkja saltmagn á umbúðir.

Þegar það er gert, hvernig er það þá gert? Það er talað um natríum. Hvernig finn ég út, ef ég sé að vara inniheldur 1 g af natríum í hverjum 100 g — hvað er það þá mikið salt? Manneldisráðleggingar eru gefnar upp sem salt en ekki natríum. Þá þarf ég að margfalda með 2,5. Þá finn ég út hversu mikið salt er í vörunni. Þá fer ég kannski út í búð og ég segi: Það eru 3 g af salti í þessari vöru í hverjum 100 g, segjum 3 g. Er það mikið eða lítið? Er mikið salt í vöru ef 3 g eru í hverjum 100 g? Ég veit það ekki en með þessum merkingum sé ég hvort grænt er fyrir salt, gult eða rautt. Ef það er grænt þá veit ég að saltið er lítið. Hugsanlega fór ég til læknis með háan blóðþrýsting og á að minnka saltneysluna. Þá horfi ég á salt. Þeir sem vilja forðast sykur horfa þá á litinn fyrir sykur og þeir sem vilja forðast fitu sjá þá hvort það er grænt, gult eða rautt fyrir fituna. Þetta er mjög neytendavænt og mjög mikilvægt vegna þess að eins og ég sagði í upphafi ef markmiðið er að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu, eigin mataræði, þá verður það að hafa þær upplýsingar sem skipta máli, annars getur það ekki axlað þessa ábyrgð. Við eigum ekki að þurfa að fara í háskólanám til að geta lesið utan á umbúðir matvara eða hafa einstakan áhuga á næringu og matvælum. Venjulegt fólk, börn, unglingar, gamalt fólk, útlendingar, óháð menntun og aldri, á að geta skilið þegar það kaupir matvæli hvort um er að ræða óhollustu eða hollan mat.

Ég vil ítreka að framleiðendur halda eðlilega jákvæðum eiginleikum á lofti, eru með heilsufullyrðingar en það er dýpra á upplýsingarnar sem snúa að óhollustu. Við sjáum heilsufullyrðingar eins og meiri trefjar, minna salt. Morgunmatur er ágætt dæmi, yfirleitt frekar sykraður, jafnvel saltaður en svo getur verið heilsufullyrðing þar sem stendur: 20% meiri trefjar. Hætt er við að það sé það sem grípur augað og að ég kaupi morgunmatinn í þeirri trú að hann sé hollur. En svo er hann hugsanlega dísætur.

Það er kannski líka rétt að tala aðeins um Skráargatið sem var innleitt fyrir ekki löngu. Það er líka valkvætt merki en það er bara hægt að setja það á hollustuvörurnar í hverjum vöruflokki. Það sem er mikilvægt við þetta merki, þetta snýr í raun að næringargildi matvæla og hér er ekki bara verið að tala um hollan mat heldur allan mat, t.d. geta kex og sælgæti, ís og gos ekki fengið Skráargatið en allir þessir flokkar mundu hafa þessa merkingu. Ég vil kannski kaupa mér kex, af því að eðlilega leyfum við okkur af og til að kaupa rauðan mat, en ég get þá kannski valið hollasta kexið ef það er það sem ég vil. Ég held að framleiðendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að rauður matur hverfi úr hillunum en ef það mundi gerast þá væri það bara frábært fyrir lýðheilsuna.

Mér finnst það líka mikið réttlætismál að neytendur hafi allar upplýsingar sem skipta máli. Það á ekki bara við um matvæli, það á náttúrlega bara við alltaf, þannig virkar markaðurinn og mér finnst þetta líka mjög mikilvægt þegar við erum að reyna að kenna börnunum okkar og unglingum að borða hollt, að við getum líka gert þau ábyrg ef þau skilja merkingarnar og geta tekið þátt í þessu. Það er kannski auðveldara að hafa stjórn á litlu börnunum fyrir framan morgunkornshilluna ef hægt er að benda á vöruna og segja: Þú mátt velja hérna með grænu jafnvel þó að dót sé í pakkanum sem er rauður þá er kannski hægt að höfða til annarra þátta og kenna þeim. Mér finnst það mjög mikilvægt.

Í Bretlandi færðust matvælin á einhverjum tímapunkti undir heilbrigðisráðuneytið. Þar af leiðandi tók heilbrigðisráðherrann svolítið af skarið í Bretlandi. Ég held að það skipti máli. Þetta er ekki eitthvað sem gerist án þess að stjórnvöld séu með og dragi vagninn. Þetta heyrir væntanlega undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en ég vil skora á heilbrigðisráðherra líka að láta sig þetta mál varða vegna þess að þetta er lýðheilsumál. Hér eins og á Vesturlöndum er staðan bara því miður sú að mikið er um lífsstílssjúkdóma sem eru tilkomnir vegna lífshátta okkar, mataræðis og hreyfingarleysis og heilbrigðiskerfið ber kostnað af því. Þá erum við ekki byrjuð að tala um lífsgæði fólks þannig að þetta er í raun, getum við sagt, forvörn og kostnaðurinn við að innleiða þessa merkingu er í raun óverulegur. Bretar eru þegar búnir að gera þetta. Við þurfum bara að kynna okkur málið og gera eins og þeir. En ávinningurinn getur verið mjög mikill og það er einmitt ástæðan fyrir því að Bretar létu til skarar skríða. Þeir eiga í miklum vanda, eru nú eiginlega ein feitasta þjóð Evrópu og ekki var lengur við unað þannig að þeir stigu þetta stóra skref og eins og ég segi, Ástralir eru komnir langt á veg. Menn hafa verið að ræða þetta líka í Bandaríkjunum. Þar er jafnvel verið að tala um einhvers konar stjörnur, að matur geti fengið stjörnur eftir hollustu þannig að ýmsar útfærslur eru í gangi. Einnig kemur það fram í þingsályktunartillögunni að gerð var rannsókn hér sem einhver þúsund Íslendinga tóku þátt í hér, það var 2006, og þá kom í ljós að neytendum hugnuðust best myndir og merki í stað prentaðs texta eins og það er í dag, þá er það næringargildi. Við höfum því meira að segja rannsókn á Íslandi sem sýnir að þetta er eitthvað sem íslenskir neytendur kunna að meta.

Ég vona að þetta mál fái jákvæða meðferð í nefnd og þakka meðflutningsmönnum mínum fyrir að styðja þetta.