143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[17:58]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér hafa fjallað um málið fyrir jákvæð viðbrögð. Til að svara þessu með muninn á Bandaríkjunum og Evrópu þá náði ég ekki að útskýra það áðan en matvælaframleiðendur fundu upp merkingu sem var kölluð ráðlagður dagskammtur eða eitthvað því um líkt og það er einmitt gefið upp í prósentum.

Þegar Bretar fóru í að samræma merkinguna og rannsökuðu málið varð niðurstaðan í rauninni sambland af litunum og þessum prósentum, sem sést ágætlega á mynd sem er aftan við greinargerðina. Fyrir þá sem hafa áhuga á skammtastærð og þess háttar kemur það fram í merkingunni.

Varðandi það að gefa upp næringargildi miðað við 100 grömm sem er aftan á umbúðum þá er það mjög mikilvægt upp á samanburð á milli tegunda, vegna þess að þá er hægt að bera saman tegundir. Og af því að við erum að tala um eitthvert viðskiptastríð og löggjöf í Evrópusambandinu eða Bandaríkjunum þá held ég að það verði íslenskum neytendum til happs ef við tökum upp löggjöf Evrópusambandsins því að hún er nokkuð neytendavæn. Og þyki manni matvælaframleiðendur valdamiklir í Evrópusambandinu er það í rauninni ekkert miðað við í Bandaríkjunum. Ég vil frekar taka upp evrópska löggjöf varðandi neytendavernd en bandaríska. Það er þó hægt að nefna eitt dæmi þar sem Bandaríkjamenn hafa verið skrefi framar, þeir settu í lög að það ætti að upplýsa um transfitusýrur í matvælum. Það var Evrópusambandið ekki búið að gera árið 2006.