143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega yfirferð. En þurfum við endilega að velja? Er það markmiðið að við séum öðrum hvorum megin? Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að læra af öðrum þjóðum. Ég verð að viðurkenna að mér er nokkuð sama hvaðan gott kemur, ef eitthvað gott kemur einhvers staðar frá þá er mikilvægt að fara yfir það hvort við getum aðlagað okkur að því eða nýtt okkur það. En mér finnst kjánalegt og fullkomlega óskiljanlegt ef við þurfum, og ég vona að við þurfum þess aldrei, að vera fastir að fullu í reglugerðarfargani Evrópusambandsins. Eigum við þá að vera að hnoða okkur í það sjálfviljug? Ég tala nú ekki um ef við finnum leið til að gera þetta betur en aðrar þjóðir, eigum við þá ekki bara að fara þá leið? Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að tala um þetta eins og svo margir sem eru hlynntir aðild að Evrópusambandinu. Evrópusambandið er tollabandalag, það er bara ríkjabandalag, ég mundi segja að það sé líklegra en hitt að ekki verði gert neitt mikið úr því í sögubókum framtíðarinnar. Það er held ég fátt sem bendir til annars. Það hafa orðið til allra handa bandalög í Evrópu, stundum eftir friðsamlegum leiðum, stundum eftir öðrum leiðum, en þetta samband er bara eitt af því sem er til staðar núna.

Eigum við ekki að setja nr. eitt, tvö og þrjú hagsmuni neytenda í forgang og taka það sem gott er en ekki vera að festa okkur í það sem kemur frá ESB, Bandaríkjunum eða einhverjum öðrum?