143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki með Evrópusambandið og allt það en mig langar að útskýra hvers vegna ég er sérstaklega hrifinn af þessari aðferð. Það er vegna þess að mér finnst gott að fólk hafi frelsi, mér finnst gott að fólk hafi val. Það er oft þannig þegar kemur að lýðheilsu eða almannahagsmunum almennt að einstaklingsfrelsið gleymist eða er hunsað. Það væri reyndar mjög dæmigert fyrir klassíska hægri/vinstri togstreitu sem er orðin gömul, þreytandi og leiðinleg og margir mundu segja úreld, þar á meðal sá sem hér stendur.

En það eru akkúrat svona aðferðir sem leiða okkur áfram veginn í því að bæta lýðheilsu með því að auka frelsi fólks vegna þess að hér fær fólk val, það fær upplýst val. Kannski er ég svo heppinn að ég hef ekkert að gera við sérstaklega hollan mat. Ég get borðað nánast eingöngu kjöt, eins og ég reyni reyndar að gera. Það er alltaf gott þegar fólk hefur val um að haga lífi sínu eftir bestu sannfæringu sinni. Því þykir mér gleðiefni þegar fram koma svona hugmyndir sem eru praktískar, þær eru einfaldar, þær eru nútímalegar, þær miða að markmiðinu án þess að ganga inn í einhvers konar styrjöld. Þess vegna furða ég mig pínulítið á því að umræðan hér hafi farið út í Evrópusambandið. Þótt það sé í sjálfu sér hið besta mál er hugmyndin þess eðlis að allir hér ættu að geta samþykkt hana. Það ættu allir ættu að geta samþykkt tillöguna vegna þess að hún er svo góð og það er þess vegna sem ég er stoltur af því að vera meðflutningsmaður á þeirri ágætu tillögu.