143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

umferðarljósamerkingar á matvæli.

212. mál
[18:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið og er alveg sammála þessari þingsályktunartillögu. Það eina sem ég legg upp með er að við, ekki í þessu máli frekar en í öðru, festumst ekki í einhverjum viðjum heldur lítum fyrst og fremst á þetta út frá hagsmunum neytenda og séum ekki feimin við að fara þær leiðir sem eru bestar.

Nokkur umræða varð um húsgöngusöluna í þinginu og það lá fyrir að hér var um það að ræða þegar menn væru að ganga í hús; þegar verið er að hringja og selja hluti þá eru önnur lög um flest slíkt, t.d. vátryggingasamninga og aðra slíka hluti. En það kom skýrt fram, alla vega hjá hv. framsögumanni, af því að ég spurði hann sérstaklega út í þessa hluti, að hér er átt við fólk sem er að ganga í hús. Og við vitum alveg hverjir ganga almennt í hús á Íslandi til að selja hluti, það eru börn og ungmenni. Það finnast örugglega dæmi um annað en þau eru langstærsti hlutinn. Ég verð bara að segja það, til hvers erum við að setja reglur um það? Er þörf á því?

Ég sit í fjárlaganefnd eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir og við horfum á eftirlitsiðnaðinn vaxa og fara margfalt fram úr öllu því sem við setjum í fjárlögin, ég ætla ekki að fara í það allt saman. Það er alveg ljóst að sú eftirlitsstofnun sem er Neytendastofa, sem mun halda utan um það, mun fara fram á einhverja fjárhæð til að hafa eftirlit með þessum hlutum. Það er enginn vafi á því. Og þegar hún fær ekki þær upphæðir þegar eitthvað kemur upp þá má hún segja: Við höfum ekki nægilegt fjármagn til að sinna lögbundnu eftirliti. Þannig vex ríkisbáknið og það eru hvorki hagsmunir skattgreiðenda né neytenda að vinna með þeim hætti.