143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

færsla eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar.

213. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna færslu eftirlits með rafföngum til Mannvirkjastofnunar. Öll allsherjar- og menntamálanefnd stendur að baki frumvarpinu, sem er ánægjulegt, og þar tekur nefndin sig saman um að gera bætur á þessum málaflokki.

Forsaga málsins er sú að þegar við vorum með til umfjöllunar í nefndinni lög um Neytendastofu og talsmann neytenda kom athugasemd við þau frá Mannvirkjastofnun þar sem hún benti okkur á hvernig farið væri með eftirlit með rafföngum, að þar væri tvíverknaður þar sem markaðseftirlit með rafföngum væri staðsett á tveimur stöðum, annars vegar hjá Neytendastofu og hins vegar hjá Mannvirkjastofnun.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sá hluti af markaðseftirliti raffanga sem er undir eftirliti og forræði Neytendastofu verði færður til Mannvirkjastofnunar þannig að forræði rafmagnsöryggismála verði hjá einni stofnun. Eins og ég sagði áðan er það hjá tveimur í dag. Aðskilnaður eftirlits með rafföngum eftir því hvort þau eru varanlega tengd mannvirkjum eða ekki á sér enga hliðstæðu í öðrum löndum og leiðir af sér mörg álitaefni og vafamál. Hafa þarf hugfast að hugtakið „varanlega tengd mannvirkjum“ er ekki afdráttarlaust hugtak og býður upp á ágreining. Sum tæki, m.a. heimilistæki, bjóða upp á val um fasttengingu eða lausa tengingu við raflögn húsa. Við þær aðstæður gæti eftirlit fallið undir báðar eða hvoruga stofnunina. Þar að auki er óhagkvæmt að skipta eftirliti með sama öryggisþætti milli tveggja stofnana. Reynslan hefur sýnt að aðskilnaður markaðseftirlits með rafföngum, að hluta til, frá öðrum rafmagnsöryggismálum hefur leitt til tvíverknaðar og óskilvirkara eftirlits. Þannig hefur eftirlit með rafföngum orðið kostnaðarsamara fyrir ríkið og meira íþyngjandi fyrir söluaðila.

Ef við tökum skýrt dæmi er það þannig að ef þú ferð út í búð og kaupir þér lampa sem þú tengir í innstunguna heima hjá þér er sá lampi undir eftirliti Neytendastofu. En ef þú notar sama lampa sem loftljós, sem er oft hægt að gera, það er svipað útlit á því, er hann varanlega tengdur mannvirki og þá ertu sjálfur búinn að færa eftirlitið frá Neytendastofu yfir til Mannvirkjastofnunar. Þetta er eitt lítið dæmi og það er ekki alltaf ljóst hvorum megin eftirlitið er og annað slíkt.

Mannvirkjastofnun fer í dag með markaðseftirlit með öllum rafmagnsvörum og er því í dag með heilmikið markaðseftirlit í þeim verslunum þar sem rafföng eru seld. Einnig fer Mannvirkjastofnun með eftirlit með öllum öryggismálum, öllum rafmagnsöryggismálum og því fer þetta vel saman.

Gerðar hafa verið tvær úttektir og skýrslur um þessi mál, annars vegar þegar verið var að setja Mannvirkjastofnun á fót. Í þeirri skýrslu kom fram að rafmagnsöryggismálin ættu öll að vera hjá þeirri stofnun og þar á meðal markaðseftirlit með rafföngum. Svo var gerð önnur skýrsla um stöðu neytendamála og þar kom fram að verkefni á rafmagnsöryggissviði ættu ekki að vera hjá stofnun um neytendamál.

Frumvarp þetta er því alveg í takti við þær skýrslur og leggjum við til, verði frumvarpið að lögum, að lögin taki gildi frá og með 1. mars svo að Neytendastofa fái smá svigrúm til þess að bregðast við breyttum aðstæðum og þá sérstaklega varðandi fjármagnið sem fylgir þessu.

Frumvarpið felur í sér að öll rafmagnsöryggismál yrðu á einni hendi sem er sambærilegt fyrirkomulagi annars staðar á Norðurlöndum, enda er málaflokkurinn ein samofin kerfisheild. Rafmagnsöryggi í landinu yrði betur tryggt, söluaðilum ekki íþyngt að óþörfu, kostnaður hins opinbera mundi lækka og sérfræðiþekking og reynsla nýttist betur. Jafnframt hefði slík breyting í för með sér einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu.

Ég legg til að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar til frekari umfjöllunar og vona að við fáum góðan stuðning við það.