143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 12. febrúar 1940, með síðari breytingum, en það er um mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum 180. og 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þær fela í sér annars vegar að veita einstaklingum með kynáttunarvanda refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda og hins vegar að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar á grundvelli viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

Meiri hlutinn vill sérstaklega benda á að með mismunun á grundvelli kynvitundar er átt við mismunun sem beint er gegn einstaklingi eða hópi einstaklinga sem telja sig hafa fæðst í röngu kyni og annaðhvort óska þess að lifa sem einstaklingur/einstaklingar af gagnstæðu kyni eða hafa þegar hafið líf sem slíkir einstaklingar.

Það skal líka tekið fram að kveðið er á um vernd tjáningarfrelsis í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994. Þar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Eigi hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þá segir í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að tjáningarfrelsinu verði ekki settar skorður nema með lögum og verði slíkar skorður að vera í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkis, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Sambærilegar takmarkanir má finna í 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Meiri hlutinn bendir á að undantekningar frá meginreglunni um tjáningarfrelsi ber að túlka þröngt og ákvæði 233. gr. a er einstök undantekning sem á fyrst og fremst rætur í alþjóðlegum sáttmála um afnám kynþáttamisréttis.

Heilt á litið voru þær umsagnir sem bárust nefndinni þess efnis að frumvarpið væri löngu tímabært og til mikilla bóta. Þó komu fram athugasemdir um að bætt yrði í ákvæði 233. gr. a orðunum „kyn eða kynferði“ því að upp hafa komið tilvik þar sem viðhafður er hatursáróður gegn konum. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Í ljósi sögu ákvæðisins er það álit meiri hlutans að ákvæðið eigi ekki við um konur í heild sinni og telur meiri hlutinn því ekki rétt að bæta við orðunum „kyn og kynferði“. Meiri hlutinn telur að ekki sé rétt að útvíkka ákvæðið með þeim hætti sem lagt er til enda fellur slíkt undir önnur ákvæði almennra hegningarlaga ef um refsiverða háttsemi er að ræða.

Meiri hlutinn vill einnig árétta að sú breyting sem gerð er á 233. gr. a felur ekki í sér efnislega breytingu á inntaki ákvæðisins heldur er breytingunni einungis ætlað að skilgreina nánar með hvaða hætti hin ólögmæta tjáning er sett fram. Það er skilningur meiri hlutans að með þessum breytingum sé einvörðungu verið að bæta við minnihlutahóp sem talinn er þurfa sérstaka vernd.

Það skal tekið fram að þetta mál fékk töluverða umfjöllun í nefndinni. Við fengum fjölda gesta og var mörgum boltum velt upp um þróun þessa málaflokks, en skilningurinn er sá að það sé ákveðin viðurkenning fyrir þessa hópa að vera nefndir í lögum og þarna erum við að bæta nýjum hópi við sem hefur ekki verið í lögunum en telst sannarlega til minnihlutahóps sem gæti átt undir högg að sækja. Það er því viss forvörn í þessu líka til að viðhalda því góða ástandi sem við teljum vera hér í þessum málum. Á það skal bent að ekki hefur oft reynt á 233. gr. a fyrir dómstólum, ekki nema einu sinni, og á 180. gr., hina greinina sem verið er að breyta, hefur aldrei reynt fyrir dómstólum. Við teljum þetta því ekki vera áhrifabreytingu nema fyrir þennan tiltekna hóp.

Því leggur meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir álitið skrifa Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Katrín Júlíusdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, en Líneik Anna Sævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.