143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.

Velferðarnefnd fékk þetta mál fyrst til umfjöllunar nú á sumarþingi. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir sem nefndin taldi þess eðlis að rétt væri að frumvarpið yrði endurskoðað nokkuð.

Í frumvarpinu, eins og það er lagt fram nú, hefur verið tekið tillit til helstu athugasemda og fagnaðarefni hversu vel hefur verið unnið að málinu. Með frumvarpinu eru lögð til ný ákvæði um leiðbeininga-, eftirlits- og rannsóknarskyldu Tryggingastofnunar ríkisins. Vert er að taka fram að ekki er um nýtt hlutverk Tryggingastofnunar að ræða þar sem á stofnuninni hvíla nú þegar þessar skyldur. Með frumvarpinu eru hins vegar lagðar til mun ítarlegri og skýrari ákvæði fyrir Tryggingastofnun að vinna eftir en eru í núgildandi lögum og er það til þess fallið að auka réttaröryggi borgaranna og skjólstæðinga Tryggingastofnunar.

Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins þurfa núgildandi ákvæði um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar endurskoðunar við. Má í því sambandi einnig nefna skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit stofnunarinnar með bótagreiðslum frá því í febrúar á fyrra ári. Kemur þar fram að skýra þurfi lögbundnar eftirlitsheimildir stofnunarinnar betur og efla verði eftirlit með bótagreiðslum. Um mikla hagsmuni allra skattgreiðenda er að ræða og mikilvægt að stofnunin taki þau verkfæri sem hún þarf svo að hægt sé að greiða úr sameiginlegum sjóðum landsmanna réttar bætur á réttum tíma til réttra aðila.

Í frumvarpinu eru ýmis ákvæði þar sem skyldur Tryggingastofnunar gagnvart sínum skjólstæðingum eru áréttaðar. Í 37. gr. er lagt til ákvæði um ítarlega leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar, sem felst meðal annars í því að stofnunin skal kynna sér aðstæður umsækjenda og kynna þeim hugsanlegan rétt sem þeir kunna að eiga samkvæmt öðrum lögum sem stofnunin starfar eftir. Þá er áréttuð rannsóknarskylda stofnunarinnar, skyldur hennar um vernd persónuupplýsinga sem unnið er með. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði er snúa að umsækjendum og greiðsluþegum. Þannig er lögfest sérstaklega hvað skuli gera ef Tryggingastofnun skortir nauðsynlegar upplýsingar sem umsækjandi býr yfir en hefur ekki veitt stofnuninni.

Sérstakt ákvæði er um upplýsingaskyldu heilbrigðisstarfsmanna sem búa oft yfir viðkvæmum persónuupplýsingum og þá eru tæmandi taldir í 43. gr. þeir aðilar sem skylt er að veita Tryggingastofnun upplýsingar sem eru stofnuninni nauðsynlegar við framfylgd laganna. Loks eru lagðar til breytingar á viðurlagaákvæði laganna þannig að brott falli heimild til innheimtu dráttarvaxta á ofgreiddar bætur og veitt heimild til þess að 15% álagi sé bætt við fjárhæð sem krafist er endurgreiðslu á. Skilyrði þess að hægt sé að beita þessari heimild er að um saknæma háttsemi viðkomandi hafi verið að ræða þar sem ásetningur viðkomandi hefur staðið til að afla sér greiðslna sem hann ekki átti rétt á.

Umsagnaraðilar og gestir sem komu fyrir nefndina fagna flestir frumvarpinu og telja það til bóta. Umfjöllun nefndarinnar beindist að mestu leyti að heimildum Tryggingastofnunar til að óska upplýsinga frá öðrum aðilum um vinnslu stofnunarinnar á persónuupplýsingum og um vitneskju skjólstæðinga stofnunarinnar um vinnslu upplýsinganna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að upplýst samþykki þurfi svo að Tryggingastofnun sé heimilt að afla tekjuupplýsinga frá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum aðilum erlendis. Annarra upplýsinga sem stofnunin þarf til eftirlits og til að sannreyna réttindi umsækjenda og greiðsluþega getur stofnunin aflað frá þeim aðilum sem taldir eru upp í 1. mgr. 43. gr. frumvarpsins. Þá er stofnuninni heimilt að óska upplýsinga frá öðrum aðilum þegar rökstuddur grunur leikur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi en ákvæðið á aðeins við þegar um eftirlit stofnunarinnar er að ræða og því sérstök skilyrði fyrir beitingu þess.

Vegna lagatæknilegra ástæðna, sem raktar eru í nefndarálitinu, er ekki fært að láta upplýst samþykki ná til fleiri atriða í lagatextanum sjálfum en til tekjuupplýsinga. Nefndin er hins vegar einhuga um mikilvægi þess að skjólstæðingar stofnunarinnar séu upplýstir um þær heimildir sem stofnunin hefur og hvernig unnið sé með persónuupplýsingar. Leggur nefndin því til breytingartillögu við frumvarpið sem felur í sér að Tryggingastofnun skuli upplýsa umsækjendur og greiðsluþega um heimildir stofnunarinnar til vinnslu persónuupplýsinga, frá hverjum stofnuninni er heimilt að afla upplýsinga, um hvaða upplýsingar er að ræða og í hvaða tilgangi er unnið með þær. Með því móti eiga skjólstæðingar stofnunarinnar að hafa nægilega góða yfirsýn yfir það með hvaða upplýsingar um þá er unnið hjá stofnuninni.

Nefndin leggur einnig til breytingu sem snýr að varðveislu gagna. Fram komu athugasemdir þess efnis að ekki væri séð að þörf væri á því að hjá stofnuninni yrði til mikið magn upplýsinga sem aflað hefði verið vegna eftirlits. Nefndin tekur undir þetta og leggur til að upplýsingum sem aflað er í þágu eftirlits skuli eytt að lokinni tímabundinni vinnslu þeirra í þágu eftirlits.

Að lokum vil ég þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf við vinnslu þessa máls en velferðarnefnd stendur öll að áliti þessu og samstaða er innan nefndarinnar um framgang málsins.

Undir álit þetta rita, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Vilhjálmur Árnason, Elín Hirst, Guðbjartur Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.