143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allri umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum, en hún fjallar um reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum.

Megintilgangurinn með frumvarpi þessu er að gera það valkvætt fyrir sveitarfélög hvort eignarhlutir í veitu- og orkufyrirtækjum séu undanskildir í útreikningi á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga notast við í störfum sínum. Enn fremur eru í frumvarpinu gerðar breytingar á orðalagi ákvæðis sem lýtur að þessu sem eiga að skýra betur efni þess og tilgang en gildistíma ákvæðisins er haldið óbreyttum, þ.e. tíu ár frá gildistöku sveitarstjórnarlaga.

Nefndin hefur fjallað um málið. Þær umsagnir sem bárust voru almennt jákvæðar gagnvart frumvarpinu. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram að eins og umrætt bráðabirgðaákvæði sé nú orðað sé eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skylt við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga að undanskilja útgjöld, skuldir og skuldbindingar þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða bera umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhluta þeirra í veitu- og orkufyrirtækjum, í allt að tíu ár frá gildistöku laganna. Það skal bent á hér til skýringar að þetta er sem sagt bráðabirgðaákvæði og er undantekning frá þeim reikningsskilum sem eru almennt um B-hlutafyrirtæki sveitarfélaga.

Þá er bent á að markmið ákvæðisins hafi verið að koma til móts við sveitarfélög sem ella væri sniðinn þröngur stakkur vegna skuldastöðu veitu- og orkufyrirtækja sem þau eiga eignarhluti í, svo sem Reykjavíkurborg vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Ákvæðið sé hins vegar orðað með það fortakslausum hætti að ekki hafi verið talið heimilt að taka reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja inn í útreikninga á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga þótt það yrði viðkomandi sveitarfélagi hagfellt, svo sem ef viðkomandi veitu- og orkufyrirtæki er fjárhagslega stöndugt. En það var aldrei markmiðið þegar bráðabirgðaákvæðið var sett að vera íþyngjandi fyrir sveitarfélagið heldur átti það að vera þeim til hægðarauka vegna þess fjárhagsástands sem upp kom.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Brynjar Níelsson og Jón Þór Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Valgerður Bjarnadóttir, Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Katrín Jakobsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason.