143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

hækkun skráningargjalda í opinbera háskóla.

[10:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina máli mínu til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa átt fundi með aðilum vinnumarkaðarins og heitið þar tilteknu framlagi af hálfu ríkisins þar sem dregið verði úr kostnaðarhækkunum sem afgreiddar voru í fjárlögum þannig að þær verði innan verðbólguviðmiðunarmarka Seðlabankans eða 2,5%. Eins og kunnugt er voru almennar verðlagshækkanir í fjárlagafrumvarpinu 3,2%. Nú skilst mér að eigi eftir að útfæra hvar verður borið niður í að lækka aftur álögur og því vil ég inna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eftir afstöðu hans til þess að tækifærið verði þá notað og stórhækkun innritunargjalda í opinbera háskóla dregin til baka eða að minnsta kosti verulega dregið úr henni. Ég held að það sé kjörið tækifæri ef svo stendur á, sem upplýst var í efnahags- og viðskiptanefnd í gær, að eftir eigi að velja þá hækkunarliði sem gangi að einhverju eða öllu leyti til baka. Þetta var stórhækkun, úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr., um fjórðungshækkun, langt umfram öll verðbólguviðmiðunarmörk og þarf ekki að fjölyrða um það.

Það væri bragur að því ef hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra beitti áhrifum sínum innan ríkisstjórnar og mundi sækja það fast að slík lækkun yrði hluti af framlagi ríkisvaldsins, en það framlag gæti falið í sér um 600 millj. kr. tekjulækkun ríkisins á þessu ári. Þannig var það lagt fyrir í nefndinni í gær, að um þriðjungur af 1.800 millj. kr. tekjuauka sem ríkið ætlaði sér með krónutölu- og gjaldskrárhækkunum gengi til baka.

Ég tel að gáfulegra væri að lækka þessi gjöld fremur en að bera niður í áfengis- og tóbaksgjaldi eða bensíngjöldum eins og einhverjar hugmyndir virðast vera uppi um. Það er tilvalið að lækka skráningargjöld í opinberu háskólana og komugjöld á heilsugæslustöðvar og ráðherra velferðarmála getur tekið það að sér.