143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

hækkun skráningargjalda í opinbera háskóla.

[10:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur farið fram hér áður. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem málið er rætt. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að niðurskurðarkröfu var stefnt að háskólunum á sama hátt og að öðrum þeim stofnunum sem heyra undir mitt ráðuneyti og annan opinberan rekstur, 1,5%. Það að háskólarnir fengu innritunargjöldin með þeim hætti sem þeir lögðu sjálfir til gerir það að verkum að þeir eiga auðveldara með að mæta þessari niðurskurðarkröfu. Það verður að horfa á nettóniðurstöðuna, virðulegur forseti, hver hún verður fyrir háskólana. Það er það sem skiptir máli.

Það kann vel að vera að sú niðurstaða hlægi hv. þingmann en hún skiptir máli, þ.e. sú ákvörðun að farið sé eftir því sem háskólarnir sjálfir leggja til en ekki brugðið þar út af þegar fyrir liggur rökstudd tillaga þeirra um hvaða kostnað er um að ræða. Reyndar má til dæmis skoða verðbólguþróunina aftur í tímann og sjá hvernig þetta gjald hefur haldið í við verðbólgu, reyndar er ekkert lagt upp með það, en ef það er skoðað (Forseti hringir.) er þetta enn innan þeirra marka sem eru ef menn horfa yfir lengra tímabil, hvernig þetta hefur þróast með verðbólguna.