143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

læknaskortur.

[10:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýninguna og tek heils hugar undir orð hennar, það er mjög nauðsynlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir. Ég er sammála henni um að sú skýrsla eða úttekt sem gerð var árið 2006 er úrelt, það eru allt aðrar forsendur í dag. Ég nefni lítið dæmi frá umræðunni um læknaskortinn á síðasta hausti. Þá gáfu upplýsingar úr því bókhaldi sem til var um stöðugildi í læknisþjónustu í landinu til kynna að einungis hefði fækkað um fjóra lækna milli ára en umræðan gaf til kynna að það væri algjört hrun í stéttinni. Þetta gefur okkur tilefni til þess að draga þá ályktun að við höfum ekki nægilega góða vitneskju eða þá að menn ræða þetta kannski meira af tilfinningu en upplýstri vitneskju.

Ég ítreka að ég fagna þessum ábendingum hv. þingmanns og heiti henni því að ég skal leggja mig fram um að reyna að koma þessum hlutum til betri vegar.