143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

úrbætur í fangelsismálum.

[10:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Til að árétta það er til sérstök skýrsla sem hægt er að nálgast þar sem tekið var út það húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem var talið geta nýst undir nýtt fangelsi. Það var gert. Þetta húsnæði hefur þá ekki verið talið vera til þess bært eða hæft. Það er til sérstök skýrsla sem gerð var í tíð síðustu ríkisstjórnar um hvaða kostir væru taldir nýtilegir en það er auðvitað alveg hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, þá voru menn að leita að fangelsi sem væri undir öryggisgæslu vegna þess að slíkt fangelsi þarf að vera í Reykjavík.

Hvað varðar aðra kosti í fangelsisnotkun og lýtur þá að langtímalausnum hefur það verið afdráttarlaus stefna hér að sú vistun og þær lausnir væru á Litla-Hrauni. Menn hafa ekki verið að skoða langtímamöguleika í vistun, þ.e. annars konar fangelsi en öryggisfangelsi, annars staðar en á Litla-Hrauni. Þær skoðanir sem hafa farið fram um þess háttar fangelsi hafa lotið að því að stækka Litla-Hraun, bæta aðstöðuna þar og tryggja að Litla-Hraun geti verið vistunarmöguleiki til framtíðar. Menn hafa ekki (Forseti hringir.) skoðað aðra kosti í því sambandi.