143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:13]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu um innflutning á landbúnaðarafurðum og landbúnaðarkerfið. Íslenskur landbúnaður og íslenskar landbúnaðarvörur hafa notið mikils trausts íslenskra neytenda í gegnum árin, þar hafa íslenskar vörur haft ímynd hreinleika og gæða og oft hefur verið talað um sérstöðu íslensku landbúnaðarvaranna og jafnvel heyrist notað hið vinsæla orðtak ríkisstjórnarinnar að þar séum við best í heiminum.

En hvað er að gerast? Í ljós kemur að í krafti einokunarinnar og til að hindra samkeppni flytur Mjólkursamsalan inn írskt smjör og blandar í íslenskar vörur af því að innlend framleiðsla smjörs annar ekki eftirspurn og til að koma í veg fyrir innflutning og samkeppni. Jafnframt hefur komið fram að áður hefur ostur verið fluttur inn samkvæmt takmörkuðum kvóta, bræddur og blandaður fyrir íslenska osta án þess að þess sé getið á pakkningum.

Þá er upplýst að töluvert af beikoni hefur verið selt hér eða notað. Það kemur erlendis frá og þess er hvergi getið hver uppruninn er.

Enn má nefna alifuglakjötið sem hefur verið flutt inn og selt undir íslensku vörumerki.

Hvar eru hagsmunir neytenda og gildi hreinleikans og matvælaöryggið og sjúkdómahættan o.s.frv. þegar menn líta á þessar staðreyndir? Ég spyr áfram: Er rétt að verja sérstaklega framleiðslu á íslenskum sykurvörum undir heiti jógúrts? Það er ekki nóg að umpakka vöru erlendis frá og blanda við hina íslensku vöru og selja hana síðan sem íslenska. Það er kominn tími til að við hefjum gagnrýna, málefnalega umræðu um íslenskan landbúnað. Menn verða að horfast í augu við og ræða hreinskilnislega kosti og galla núverandi landbúnaðarkerfis sem um margt virðist verja meira sérhagsmuni ákveðinna fyrirtækja en hagsmuni neytenda og bænda. Þar vitna ég í orð formanns Bændasamtakanna í Bændablaðinu sem „segir ólíðandi að góðri ímynd íslenskra landbúnaðarafurða sé fórnað fyrir stundargróða einstakra fyrirtækja“.

Það segir eiginlega allt sem segja þarf. Það þarf að skoða (Forseti hringir.) þá einokunaraðstöðu sem er á markaðnum, efla samkeppni. (Forseti hringir.) Við höfum engu að tapa og eigum að treysta á að gæði vörunnar séu þau að hún standist þá samkeppni.