143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mjög mikilvægt að við ræðum landbúnaðarmál á þinginu ofan í kjölinn. Við í Bjartri framtíð erum þeirrar skoðunar að nú eigi að auka heldur innflutning í landbúnaðarvörum og trúum því að frjáls samkeppni sé algjört grundvallaratriði fyrir neytendur og ekki bara fyrir neytendur heldur líka fyrir fyrirtæki. Samkeppni heldur fyrirtækjunum á tánum og samkeppni tryggir neytendum úrval, gæði eða hagstætt verð, allt eftir því hverju neytandinn sækist eftir. Það er jú hann sem velur og hafnar. Við getum svo deilt um það hversu mikið eftirlit á að vera og hversu miklar upplýsingar neytendur eiga að fá, en ég held að í raun deili enginn um að samkeppni er af hinu góða. Þess vegna er svolítið merkilegt að við séum með heilan geira hérna þar sem samkeppni gildir í rauninni ekki. Jafnvel frjálslyndustu flokkarnir hafa haldið verndarhendi sinni yfir landbúnaðarkerfinu í gegnum árin og áratugina. Ég segi því að annaðhvort trúum við á frjálsa samkeppni eða ekki.

Svo finnst mér líka mikilvægt að halda því til haga að það er eitt að niðurgreiða landbúnaðarvörur og það er gert víða um heim. Við göngum hraustlega til verks á Íslandi og það er ástæða fyrir því, það eru erfiðar aðstæður hér. Það er í rauninni pólitísk ákvörðun hversu mikið við styrkjum og hvað við styrkjum. Mér finnst til dæmis merkilegt hvað við gerum lítið í að styðja við lífræna ræktun en það er pólitísk ákvörðun.

Hitt er síðan verndarstefnan. Það er merkilegt að stjórnvöld ákveði beinlínis að Íslendingar eigi að borða lambakjöt en ekki innflutt dádýrakjöt, þeir eiga að borða íslenska osta en ekki innflutta osta. Það gerum við með því að leggja á gjöld og tollkvótarnir, sem þó eru og eiga að auka samkeppni, eru boðnir út þannig að þá þarf einhver að kaupa tollkvóta og það fer út í verðlagið og neytandinn borgar fyrir það.