143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég fagna þessari umræðu. Mér finnst þetta góðar spurningar sem komu frá frummælanda í þessari umræðu. Mér finnst þetta eiga að vera einhvers konar hvati til þess að við vöknum aðeins og förum ekki af þeirri braut sem við vorum byrjuð að feta.

Það var mjög ruglandi ef maður ætlaði að kaupa sér grænmeti, það var með íslenskum fána og það er enn þá þannig en svo kemur í ljós að það er frá Bandaríkjunum eða einhverju öðru landi. Það er þó byrjað að merkja það þannig. Auðvitað eiga neytendur að hafa skýlausan rétt til að vita hvaðan vörurnar koma, hvort sem þær eru hefðbundnar íslenskar landbúnaðarvörur eða eitthvað annað.

Svo er annað líka mjög mikilvægt og mig langaði að spyrja ráðherra hvort til standi að breyta eða hvort búið sé að breyta því. Einu sinni var það þannig að besta smjörið kom frá einhverjum bæ. Það er ómögulegt að vita hvaðan besta smjörið kemur eða besta mjólkin af því að þessu er öllu hrúgað saman í eina stóra púllíu. Er það enn þá þannig og stendur til að breyta því? Ég mundi gjarnan vilja versla við bóndann sem er með besta smjörið eða bestu mjólkina. Þá er kannski auðveldara að vita hvort smjörið sé í raun og veru frá Íslandi eða Írlandi.

Síðan finnst mér mjög mikilvægt að við höldum áfram þeirri þróun að tryggja að neytendur viti hvort matvæli séu erfðabreytt og hvaðan þau koma því að það eru mjög mismunandi reglugerðir eftir löndum. Þeir eru töluvert strangari til dæmis í Evrópu um það en í Bandaríkjunum.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða að tryggja að íslenskir neytendur viti hvað þeir eru að borða.