143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:25]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir nauðsynlega umræðu. Íslenskur landbúnaður er umtalaður erlendis fyrir þær varúðarráðstafanir sem gilda í lögum hérlendis. Við getum alltaf gert betur að sjálfsögðu og þurfum að axla ábyrgð á okkar eigin framleiðslu og því sjálfsagt að bæta upprunamerkingar hérlendis. Í dag er lambakjötið til dæmis það vel sett að neytandinn getur rakið sunnudagslærið sitt aftur til þess haga þar sem lambinu var beitt. Þetta er í raun vinnan og ferlið í gegnum þá framleiðslu sem við höfum búið til hérlendis. Það er auðvitað nauðsynlegt að vita hvaðan maturinn kemur.

Í störfum þingsins í gær talaði ég um frjálsan innflutning og afleiðingar þess að við mundum ganga svo langt, hættuna á því að treysta á lönd sem eru farin að treysta á önnur lönd til að hafa ofan í sína eigin þjóð. Sá innflutningur sem er leyfður skal auðvitað sæta ströngum reglum. Við þurfum að gæta fyllstu varúðar. Allur flutningur dýra og dýraafurða hefur alltaf í för með sér ákveðna áhættu. Ég tek því undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að við megum ekki tala um framtíðarlandbúnaðarstefnu Íslands í samhengi við það mál sem kom hér upp um að neytendum fannst þeir vera blekktir, það var dæmi sem við getum í raun tekið á. Það er okkar stjórnvalda að taka því á þegar þannig mál koma upp.

Við verðum líka að hugsa í þessu samhengi: Hvað værum við að reyna að gera og hvað værum við að tala um í þessu samhengi ef ekki væri möguleiki að fá innflutt matvæli frá öðrum löndum, sér í lagi í ljósi þessa ástands sem ríkir í heiminum í dag?

Það hefur verið minnst á upprunamerkingar hérna. Það er ekki nóg að við bætum okkur í þeim málum, því að nú hafa komið upp dæmi þar sem kjúklingi var slátrað í Lettlandi eða Litháen, hann var fluttur til Danmerkur, pakkaður þar og síðan var hann fluttur annað og seldur þar, meðal annars á Íslandi. Þannig að við þurfum líka að hvetja önnur lönd, sem við erum að skipta við í þessu samhengi, til að bæta sínar upprunamerkingar.